Eggert Valur leiðir Á-listann í Rangárþingi ytra

Eggert Valur Guðmundsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg, leiðir Á-listann í Rangárþingi ytra fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar þann 14. maí næstkomandi.

Á-listinn býður nú fram í fjórða skiptið í Rangárþingi ytra en í síðustu sveitarstjórnarkosningum fékk listinn þrjá menn kjörna. Á listanum fyrir komandi kosningar er fólk með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu úr atvinnulífinu, sem og úr sveitarstjórnarmálum.

„Allir frambjóðendur eru búsettir í sveitarfélaginu og er listinn óháður hefðbundnum stjórnmálaflokkum. Þannig teljum við hag sveitarfélagsins best borgið, með áherslum íbúanna sjálfra um þeirra eigin hag,“ segir í tilkynningu frá Á-listanum. „Frambjóðendur eru fullir tilhlökkunar að vinna að þeim verkefnum sem liggja fyrir, sem fulltrúar allra íbúa sveitarfélagsins.“

Í tilkynningu frá framboðinu segir að það tefli ekki fram fyrirfram ákveðnu sveitarstjóraefni, en fái framboðið til þess stuðning mun það auglýsa eftir hæfum einstaklingi til að framkvæma þau verkefni sem sveitarstjórn setur í farveg hverju sinni.

Listinn er þannig skipaður:
1. Eggert Valur Guðmundsson, 59 ára, sjálfstætt starfandi.
2. Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, 45 ára, bóndi og sveitarstjórnarfulltrúi.
3. Erla Sigríður Sigurðardóttir, 29 ára, sjúkraflutningamaður.
4. Þórunn Dís Þórunnardóttir, 29 ára, aðstoðarútungunarstjóri og rafvirkjanemi.
5. Viðar Már Þorsteinsson, 47 ára, tæknifulltrúi og símsmiður.
6. Brynhildur Sighvatsdóttir, 33 ára, tamningamaður.
7. Berglind Kristinsdóttir, 48 ára, verslunareigandi og prjónakona.
8. Magdalena Przewlocka, 43 ára, grunnskólakennari og stærðfræðingur.
9. Jón Ragnar Björnsson, 79 ára, eldri borgari og formaður félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.
10. Fjóla Kristin B. Blandon, 29 ára, grunnskólakennari og master í íþróttasálfræði.
11. Yngvi Harðarson, 62 ára, vélstjóri.
12. Daníel Freyr Steinarsson, 24 ára, vélamaður og slökkviliðsmaður hjá Brunavörnum Rangárvallasýslu.
13. Jóhanna Hlöðversdóttir, 33 ára, stöðvarstjóri hjá Matorku Fiskeldi.
14. Magnús Hrafn Jóhannsson, 58 ára, teymisstjóri.