Misskilningur leiðréttur

Vegna pistils fréttaritara í Rangárþingi eystra í Morgunblaðinu í dag 5. júní, þar sem fram kemur að nú ráði ríkjum framsóknarmenn og óháðir allt frá Hornafirði að Þjórsá hið minnsta, vil ég til að fyrirbyggja misskilning koma eftirfarandi á framfæri. Í Rangárþingi ytra náði Á-listinn meirihluta sem er að sönnu stórfrétt, en það er þverpólitískt afl áhugafólks um sveitarstjórnarmál. Án þess að ég hafi neitt á móti framsóknarmönnum hefði mér þótt betur orðað að segja í fréttinni að ýmist framsóknarmenn eða óháðir réðu nú ríkjum milli Hornafjarðar og Þjórsár en af orðalagi fréttarinnar mátti skilja að samsuða framsóknar og óháðra réði nú ríkjum á þessu stóra svæði.

Held ég þessu til haga vegna þess að eftir síðustu kosningar 2006 var minnihlutinn í R-Y aldrei kallaður annað en B-listi þó að hann væri samsettur úr framsókn og óháðum. Talaði þáverandi formaður einmitt um það eftir þær kosningar að Framsóknarflokkurinn hefði unnið stórsigur, en minntist ekki á framlag óháðra sem þó var ekki lítið. Skil ég vel að fréttaritari hafi misst sig aðeins í sigurvímunni eftir kosningarnar hinn 29. maí síðastliðinn, en maður hennar leiddi einmitt lista Framsóknar og óháðra til stórsigurs í Rangárþingi eystra og færi ég honum hér með hamingjuóskir mínar af því tilefni.

Ég vil aðeins koma þessu á framfæri vegna áhuga okkar Á-listafólks á að setja fólk í fyrsta sæti, óháð pólitískum skoðunum. Þessi grein er samt sem áður alfarið á mína ábyrgð. Þingmenn á hinu háa Alþingi geta karpað eftir flokkslínum, við hin höfum verk að vinna.

Með kærri kveðju.
Steindór Tómasson,
verðandi sveitarstjórnarmaður Á-lista í Rangárþingi ytra.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2010