Frambjóðendur

Frambjóðendur Á-listans KJörtímabilið 2022-2026

Fjölbreyttur hópur með sameiginlega stefnu og markmið

1. sæti – Eggert Valur Guðmundsson – Sjálfstætt starfandi

Eggert Valur býr ásamt eiginkonu sinni á Hellu. Eggert er reynslumikill í sveitarstjórnarstörfum og hefur átt sæti sem kjörinn fulltrúi í fimm kjörtímabil; frá 1998-2002 í gamla Rangárvallarhreppi, frá 2002-2005 í Rangárþingi ytra þar til hann flutti í Árborg. Frá 2010 hefur hann verið bæjarfulltrúi í Árborg þar til 16. mars s.l. er hann flutti aftur í Rangárþing ytra. Eggert starfaði hjá Landsvirkjun á Þjórsár-Tungnaársvæðinu frá árinu 1980 til 2006, en síðan þá hefur hann starfað sjálfstætt í verslunarrekstri og ferðaþjónustu. Hann hefur gaman af skógrækt og hefur verið virkur félagi í Oddfellowreglunni frá árinu 2007. Eggert hefur m.a. mikinn áhuga á að virkja betur íbúalýðræði og hleypa íbúunum sjálfum að stórum ákvörðunum eins mikið og lög leyfa.

2. sæti – Margrét Harpa Guðsteinsdóttir- Bóndi

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir býr í Lambhaga á Rangárvöllum ásamt manni sínum og fjórum börnum og stunda þau þar búskap. Samhliða því hefur hún setið í 8 ár í sveitarstjórn Rangárþings ytra og einnig í ýmsum nefndum og hefur því góða innsýn í málefni sveitarfélagsins. Margrét Harpa hefur mörg áhugamál, s.s. tónlist, líkamsrækt, lestur, útivist, matseld, barnauppeldi og samvera með fjölskyldu og vinum. Málefni tengd börnum og skólum eru henni afar hugleikin sem og að bæta þjónustu allra íbúa sveitarfélagsins. Margrét Harpa vill sjá til þess að sveitarfélagið sé með skýra stefnu í öllum málaflokkum og nái þannig að vaxa og dafna.

3. sæti – Erla Sigríður Sigurðardóttir – Sjúkraflutningamaður

Erla ólst upp í Mosfellsbæ og flutti austur á Hellu árið 2014 og býr nú í Heiðvangi með dætrum sínum tveimur. Erla hefur starfað sem sjúkraflutningamaður hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands síðan 2016. Samhliða því hefur hún þjálfað fimleika hjá Ungmennafélaginu Heklu. Einnig hefur hún verið í stjórnendanámi við Háskólann á Akureyri síðastliðin ár. Erla hefur verið félagi í Flugbjörgunarsveit Hellu síðan hún flutti á Hellu, situr í svæðisstjórn björgunarsveita í Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu auk þess að vera í aðgerðastjórn Almannavarna á Suðurlandi. Það er kraftur í Erlu og hana langar að láta til sín taka í sveitarstjórn. Áherslumál Erlu eru m.a. að byggja upp betra fjölskylduvænna samfélag, bæta íþrótta- og forvarnarstarf sem og umferða- og öryggismál.

4. sæti -Þórunn Dís Þórunnardóttir – Aðstoðarútungunarstjóri

Þórunn Dís, betur þekkt sem Dísa, býr í Reiðholti í Holtum. Hún hefur búið alla sína tíð í sveitarfélaginu, með smá pásum, og starfar nú hjá Reykjagarði sem aðstoðarútungunarstjóri. Hún hefur þó lengst af verið tengd við Landvegamót, þar sem hún hefur verið viðloðandi við vinnu síðan hún var 14 ára gömul. Dísa er stúdent af náttúrufræðibraut frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og lauk BS gráðu í Búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2020. Dísa hefur verið mjög virk í ýmsum félagsmálum og er meðal annars formaður Samtaka ungra bænda á Suðurlandi. Kjör og aðstæður ungs fólks eru Dísu mjög hugleikin og vill hún leggja sitt af mörkum að gera því kleift að starfa og búa í Rangárþingi ytra.

5. sæti – Viðar Már Þorsteinsson – Tæknifulltrúi

Viðar Már, eða Viddi eins og hann er oftast kallaður, er fæddur og uppalinn á Hellu. Hann flutti til Reykjavíkur í kringum tvítugt til að freista gæfunnar og gegndi þar ýmsum störfum en hefur lengst af unnið sem tæknifulltrúi hjá Símanum/Mílu, eða í 26 ár. Viddi komst að því á fullorðinsárum að gæfuna var ekki að finna í Reykjavík, heldur á Hellu, þar sem hann kynntist eiginkonu sinni, Dísu, árið 2014. Hann flutti því aftur í heimahagana og vinnur fjarvinnu hjá Mílu. Viddi hefur um árabil setið í sambandsstjórn Rafiðnaðarsambandsins og sem varamaður í miðstjórn þess. Áhugamál Vidda eru íþróttir, aðallega golf, sem hann spilar af miklum móð þegar tækifæri gefst. Íbúalýðræði og efling íþrótta- og tómstundastarfs barna eru áherslumál sem Viddi vill berjast fyrir.

6. sæti – Brynhildur Sighvatsdóttir – Tamningamaður

Brynhildur er nýflutt á Hellu með maka og tveimur börnum. Hún er sjálfstætt starfandi hestakona en hefur undanfarin ár búið og starfað í Reykjavík, m.a. sem verslunarstjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands og bókari hjá Félagsbústöðum. Hún hefur einnig starfað mikið með börnum, sem stuðningsfulltrúi, frístundaleiðbeinandi og verkstjóri í Vinnuskóla Reykjavíkur. Brynhildur lauk hestafræðibraut í FSU og nam skógfræði- og landgræðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands. Síðar fór hún í fjallamennskunám, því hún veit fátt betra en að ferðast um hálendið og njóta náttúru Íslands. Brynhildur leggur áherslu á að þjónusta við börn sé alltaf í toppstandi og þau fái næg tækifæri til að blómstra óháð aðstöðu og efnahag. Sem hestakona mun hún styðja við áframhaldandi uppbyggingu hestamannasvæðisins á Gaddstaðaflötum.

7. sæti – Berglind Kristinsdóttir – Verslunareigandi

Berglind er fædd og uppalin á Hellu þar sem hún býr ásamt eiginmanni og dóttur. Hún gekk í Grunnskólann á Hellu og síðan í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Berglind hefur starfað á ýmsum vettvangi í sveitarfélaginu, m.a. í Reykjagarði, Olís, Leikskólanum Heklukoti og Grunnskólanum. Hún var verslunarstjóri í Kjarval og rak auk þess innrömmunarverkstæði í hjáverkum um árabil. Í dag á hún og rekur verslunina Litla lopasjoppan á Hellu. Berglind leggur áherslu á bætt framtíðarskipulag miðbæjarkjarna með áherslu á verslun og þjónustu fyrir íbúa og ferðamenn. Ferðaþjónustan er Berglindi hugleikin og henni er umhugað um að Rangárþing ytra verði áhugaverður kostur fyrir ferðamenn af öllu tagi til að staldra lengi við á sínu ferðalagi. Flestum frístundum eyðir Berglind í rólegheitastundir með fjölskyldunni og gjarnan með prjónana, gott kaffi og kisu á kantinum.

8. sæti – Magdalena Przewlocka – Grunnskólakennari og stærðfræðingur

Magdalena er stærðfræðingur og grunnskólakennari að mennt. Hún hefur búið á Hellu ásamt eiginmanni sínum síðan árið 2006 og er pólsk að uppruna. Hún er starfandi sem stærðfræði- og umsjónarkennari í Grunnskólanum á Hellu. Magda hefur gaman af að föndra tækifæriskort, fara í gönguferðir með hundinn og er mikill lestrarhestur. Hún hefur áhuga á skólamálum og vill bæta aðgengi nemenda að tækni og þjónustu sérfræðinga. Hún er með mjög mikla reynslu í innflytjendamálum og starfar að hluta við að leiðbeina nýbúum um íslenskt samfélag. Magda vill vinna í að efla þjónustu við innflytjendur sem hjálpar innflytjendum að aðlagast samfélaginu okkar.

9. sæti – Jón Ragnar Björnsson – Formaður félags eldri borgara

Jón Ragnar býr á Hellu, er upphaflega úr Borgarfirði en starfaði lengi og bjó í Reykjavík. Hann lærði búvísindi í Danmörku og markaðs- og viðskiptafræði hjá Endurmenntun HÍ. Starfaði sem sérfræðingur hjá ýmsum landbúnaðarstofnunum, síðast hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti. Hann starfrækti gistiheimilið Guesthouse Nonni og hitti þar margt skemmtilegt fólk sem auðgaði líf hans. Ferðalög og ljósmyndun eru meðal áhugamála hans. Jón er talsmaður fjölbreyttrar atvinnusköpunar til að styrkja sveitarfélagið, því með fjölbreyttari atvinnu, fjölgar íbúum. Jón Ragnar brennur fyrir málefnum eldri borgara og er formaður Félags eldri borgara í  Rangárvallasýslu. “Við verðum flest eldri borgarar, tökum því höndum saman og berjumst öll fyrir bættum hag fólks á efri árum!”

10. sæti – Fjóla Kristín B. Blandon – Grunnskólakennari

Fjóla býr í Skarði í Landsveit og hefur búið þar alla tíð, fyrir utan nokkur ár í Reykjavík og Skotlandi í tengslum við nám. Hún er með BS gráðu í sálfræði og MS í íþróttasálfræði og er í námi til kennsluréttinda hjá Háskólanum á Akureyri. Hún starfar sem grunnskólakennari í Laugalandsskóla og er líka með annan fótinn í sveitastörfum. Fjóla hefur gaman af líkamsrækt s.s. kraftlyftingum, bókalestri og fimmaurabröndurum. Henni finnst mjög mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri í leik og starfi og aðgengi að sálfræði- og félagsþjónustu sé fyrsta flokks. Hún brennur fyrir umhverfisvernd, sjálfbærni og heilbrigðu líferni.

11. sæti – Yngvi Harðarson – Vélstjóri

Yngvi er búsettur í Hábæ 1a í Þykkvabæ og stundar þar kartöflurækt með bróður sínum. Hann er fæddur og uppalinn í Þykkvabænum og hefur búið þar lengst af. Hann er menntaður vélstjóri, stundaði sjómennsku og er mikill áhugamaður um jarðrækt. Yngvi var einn af þremur fulltrúum Á-listans í sveitarstjórn á kjörtímabilinu sem er að líða. Yngvi vill taka þátt í að styrkja samfélagið þannig að bæði í þéttbýli og dreifbýli verði öflugt mannlíf og félagslíf til framtíðar, þannig að ungt fólk telji það góðan kost að setjast hér að.

12. sæti – Daníel Freyr Steinarsson – Vélamaður

Daníel hefur búið í sveitarfélaginu alla sína tíð á Brekkum í Holtum. Hann hefur starfað sem vélamaður hjá Nautási ehf. með hléum síðan 2015 og Slökkviliði Rangárvallasýslu frá 2020. Hann hefur mikinn áhuga á að ferðast um í náttúru Íslands og taka ljósmyndir. Hann hefur einnig mikinn áhuga á vinnuvélum af ýmsum toga, landbúnaðarvélum sem öðrum, og finnst fátt skemmtilegra en að taka gott spjall við fólk. Í sveitarstjórnarmálum hefur Daníel mikinn áhuga á að skapa meira og fjölbreyttara atvinnulíf auk þess að bæta heimahjúkrun. Hann vill gera sorpþjónustuna betri og stuðla að því að sveitavegir komist í gott stand.

13. sæti – Jóhanna Hlöðversdóttir – Sauðfjárbóndi

Jóhanna býr að Hellum í Rangárþingi ytra ásamt sambýliskonu sinni, börnunum þeirra fimm, móður, tveimur hundum, einum ketti og tæplega 300 kindum. Frá árinu 2014 hefur hún hefur verið stöðvarstjóri í fiskeldi Matorku í Fellsmúla ásamt því að vera bóndi og námsmaður í frítíma sínum. Jóhanna hefur verið varamaður í sveitarstjórn á kjörtímabilinu sem er að líða, en tók við sem aðalmaður snemma árs 2022. Jóhanna hefur mikið snúist í kringum íþrótta- og félagsmál, en skólamál og ferðaþjónusta leika stórt hlutverk á hennar áhugasviði.

14. sæti – Magnús Hrafn Jóhannsson – Teymisstjóri

Magnús er líffræðingur að mennt með PhD gráðu í grasa- og vistfræði og starfar sem teymisstjóri hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti. Hann býr á Hellu ásamt fjölskyldu sinni. Síðan 2006 hefur Magnús unnið að sveitarstjórnarmálum í Rangárþingi ytra, var aðalfulltrúi í sveitarstjórn 2010-2014 og varamaður síðustu tvö kjörtímabil. Á líðandi kjörtímabili var hann einnig fulltrúi listans í hálendisnefnd. Umhverfismál og málefni tengd hringrásarhagkerfi eiga hug hans allan þessi misserin. Allskyns útivist heillar Magnús, sérstaklega stangveiðiferðir og ferðir um hálendið sem hann nær að sameina í rekstri fyrirtækis síns, “Mudshark ecotours and angling”.