Af fundi sveitarstjórnar 10. desember 2025
Gaddstaðavegur
2501031
Lögð fram drög að samningum milli sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar, sveitarfélagins og landeiganda á Gaddstöðum og kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar vegna uppbyggingu Gaddstaðavegar.
EÞI og EVG tóku til máls.
Lagt er til að samningur við Vegagerðina verði samþykktur.
Samþykkt með fjórum atkvæðum. EÞI, BG og GMÁ sitja hjá.
Lagt er til að samningur við landeigendur verði samþykktur.
Samþykkt með fjórum atkvæðum. EÞI, BG og GMÁ sitja hjá.
Bókun D-lista:
Fulltrúar D-lista taka undir bókun fulltrúa D-lista á byggðarráðsfundi 26. nóvember sl.
Það ber að fagna því að það náðist fram, með samstöðu málsaðila, að fá Gaddstaveginn metinn sem héraðsveg og tryggja þannig aðkomu Vegagerðarinnar að framkvæmdinni og kostun hennar. Ekki síður ber að fagna samkomulagi sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar um veg með vegi, tengingu Gaddstaðahverfisins við komandi hringtorg austan Helluþorps og fjármögnun verkefnisins. Mikil bót hvað varðar öryggi og aðgengi.
Hins vegar er aðkoma sveitarfélagsins að samningum við lóðarhafa við Gaddstaðaveg og kostun framkvæmda að hluta, verulega gagnrýniverð. Þar teljum við undirrituð að ekki sé gætt jafnræðis á meðal íbúa í sveitarfélaginu. (EÞI, BG, GMÁ).
Bókun Á-lista:
Í framhaldi af bókun fulltrúa D lista sem lögð var fram á fundi byggðarráðs þann 26. nóvember sl. leggur meirihluti sveitarstjórnar nú fram eftirfarandi bókun.
Á árunum 2017 til 2020 skipulagði Rangárþing ytra lóðirnar við Gaddstaðveg og seldi þær sem eignarlóðir. Í kaupsamningum vegna sölu lóðanna frá þeim tíma er ekki að finna ákvæði um hver skuli bera kostnað við lagningu vegar að lóðunum. Hins vegar má finna í deiliskipulagi, sem sveitarfélagið gerði fyrir svæðið, ákvæði um að aðkoma verði að lóðunum um nýjan veg sem muni liggja að lóðunum með tengingu við Suðurlandsveg. Það má færa rök fyrir því að kaupendur lóðanna hafi við kaup þeirra mátt hafa réttmætar væntingar til þess að seljandi lóðanna, sveitarfélagið, myndi standa straum af kostnaði við lagningu vegarins eins og kom fram í gildandi deiliskipulagi. Í því sambandi má einnig vísa til þess að verulegur aðstöðumunur er almennt á milli sveitarfélagsins og kaupenda lóða þar sem sveitarfélagið er mun betur í stakk búið til að gera sér grein fyrir réttarstöðu aðila í þessu tilliti, og ber að auki almenna upplýsinga og leiðbeiningarskyldu gagnvart viðsemjendum skv. meginreglum stjórnsýsluréttar. Kaupendur hafa þannig lýst því að umrædd vegtenging hafi verið forsenda kaupanna á sínum tíma og því eigi þeir kröfu til þess að sveitarfélagið standi straum af þeim kostnaði sem að öðrum kosti myndi falla á landeigendur við lagningu vegar að lóðunum að Gaddstöðum með tengingu við Suðurlandsveg eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagi svæðisins.
Á fundi byggðarráðs Rangárþings ytra þann 22. febrúar 2023 var lagt fram erindi frá Hagsmunafélagi Gaddstaða um að sveitarfélagið hlutaðist til um að sækja um til Vegagerðarinnar að vegur að svæðinu yrði héraðsvegur. Í erindinu var lýst óviðunandi ástandi vegslóðans að hverfinu og aðgerðarleysis sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar gagnvart uppbyggingu vegarins.
Á fundi byggðarráðs Rangárþings ytra þann 22. febrúar 2023 var sveitarstjóra falið að leggja fram umsókn til Vegagerðarinnar um héraðsveg að Gaddstöðum sem var gert þann 26. apríl 2023. Með ákvörðun Vegagerðarinnar, dags. 23. júní 2023, var umsókninni hafnað með nánari rökstuðningi. Ef sú niðurstaða hefði fengið að standa hefði það leitt til þess að vegtenging hverfisins hefði fallið undir skilgreiningu sveitarfélagsvegs og hefði þá sveitarfélagið alfarið borið kostnað af vegtengingunni sem veghaldari skv. 9. gr. vegalaga. Til nánari skýringar þá er gert ráð fyrir því í 1. mgr. 13. gr. vegalaga nr. 80/2007 að Vegagerðin fari með veghald þjóðvega, þ.m.t. héraðsvega, en sveitarfélög með veghald sveitarfélagsvega. Samkvæmt 20. gr. vegalaga er síðan gert ráð fyrir því að skráður eigandi fasteignar greiði helming kostnaðar við gerð nýs héraðsvegar á móti Vegagerðinni.
Á fundi byggðarráðs Rangárþings ytra þann 12. júlí 2023 voru lagðar fram niðurstöður Vegagerðarinnar í málinu. Samþykkt var á fundinum að fela sveitarstjóra í samráði við lögmann sveitarfélagsins að kæra ákvörðun Vegagerðarinnar til Innviðaráðuneytisins og óska eftir flýtimeðferð í málinu. Með úrskurði Innviðaráðuneytisins frá 5. mars 2024 í máli nr. IRN23060062 var felld úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar frá 29. júní 2023 um synjun umsóknar sveitarfélagsins um héraðsveg að Gaddstöðum. Ráðuneytið féllst með úrskurði sínum ekki á það með Vegagerðinni að synja bæri umsókn sveitarfélagsins um að vegtenging að Gaddstaðahverfi yrði skilgreindur héraðsvegur á þeim forsendum að skilyrði um að vegurinn væri utan þéttbýlis væri ekki uppfyllt. Með úrskurðinum var lagt fyrir Vegagerðina að taka umsókn sveitarfélagsins til meðferðar að nýju með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í úrskurðinum.
Eftir fundi bæði með Vegagerðinni og íbúum í Gaddstaðahverfi náðist samkomulag um útfærslu vegagerðar og kostnaðarskiptingu á þeim grunni að vegurinn verði skilgreindur sem héraðsvegur. Um er að ræða tvo samninga, sem byggja þó á þeim forsendum að báðir standi og öðlist gildi. Annars vegar er um að ræða samning við Vegagerðina um útfærslu framkvæmdarinnar og fjármögnun og svo hins vegar samning við eigendur lóða á svæðinu vegna kostnaðarhlutdeildar þeirra í lagningu bundins slitlags á veginn, sem er forsenda þess að Vegagerðin taki þátt í framkvæmdinni. Nánar tiltekið skiptist kostnaður við uppbyggingu núverandi vegar samkvæmt samningunum að jöfnu á milli Vegagerðarinnar og Rangárþings ytra, f.h. landeigenda, í uppgjöri gagnvart Vegagerðinni. Þannig greiðir Vegagerðin 50% hluta þess kostnaðar og Rangárþing ytra 50%. Hafa ber í huga að samningurinn við Vegagerðina um veg með vegi sem er órjúfanlegur hluti þessa samkomulags hefur mikið gildi fyrir starfsemi Skógræktarfélags Rangæinga og aðgengi almennings að aldamótaskóginum samhliða því að auka mjög á umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Á sama tíma ábyrgjast landeigendur að greiða sveitarfélaginu þann hluta kostnaðarhlutdeildar sveitarfélagsins sem hlýst af lagningu bundins slitlags og burðarlagi þess. Með þessu er farið bil beggja þannig að upphaflegar skyldur seljanda lóðanna, sveitarfélagsins, eru uppfylltar um leið og sér til sólar varðandi endanlegan frágang og gerð héraðsvegarins.
Tilvísun fulltrúa D lista í bókun sinni til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar á því ekki. Því er afgreiðsla málsins með ofangreindum hætti ekki fordæmisgefandi fyrir aðra héraðsvegi í sveitarfélaginu. Staðhæfingum sem fram koma í bókun fulltrúa D lista frá fundi byggðarráðs þann 26 nóv er því vísað til föðurhúsanna. (EVG, MHG, VMÞ, BS).
Fylgiskjöl:
- Drög að samningi við Vegagerðina uppfærð drög hreinsað 22.10.2025.pdf
- Drög að samningi við landeigendur Gaddstaðavegur uppfærður DSS 17.11.2025.pdf. hreint
- Byggðarráð Rangárþings ytra – 44 (26.11.2025) – Gaddstaðavegur
EVG tekur aftur við stjórn fundarins..


