Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, ásamt fylgdarliði átti góðan fund á Hellu í dag með fulltrúum úr sveitarstjórn og sveitarstjóra. Þar voru t.d. rædd framtíðaráform fyrirtækisins í sveitarfélaginu sem eru m.a. vindorkugarður á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá og aflaukning Sigölduvirkjunar. Einnig voru rædd áform um uppbyggingu Grænna iðngarða en Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri skrifaði s.l. miðvikudag undir viljayfirlýsingu við Orkídeu um að koma upp slíkum iðngörðum í sveitarfélaginu. Landsvirkjun er einn stærsti bakhjarl Orkídeu-verkefnisins en það er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi í tengslum við orkufrekan iðnað.
Ein af þeim hugmyndum sem fulltrúar Á-listans viðruðu á fundinum var hvort að ávinningur beggja aðila gæti verið fólginn í að fyrirtækið setji upp starfsstöðvar í sveitarfélaginu í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir, en það er í samræmi við áherslur Á-listans sem komu fram í aðdraganda kosninga. Þessari hugmynd var vel tekið af fulltrúum Landsvirkjunar og verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður. Haldið verður áfram virku samtali við fulltrúa fyrirtækisins þar sem heildarhagsmunir sveitarfélagsins verða í fyrirrúmi.