Það er góður siður við áramót að líta yfir það helsta í rekstri og verkefnum sveitarfélagsins á því ári sem er að líða, og í leiðinni að horfa til framtíðar. Það er líka nauðsynlegt að standa vörð um það sem vel er gert og ekki síður mikilvægt að vera stöðugt á vaktinni gagnvart nýjum og ferskum hugmyndum sem gætu verið okkur íbúunum gagnlegar. Framundan er örugglega viðburðaríkt ár með fjölmörgum spennandi verkefnum og áskorunum. Það er full ástæða til bjartsýni, okkar kraftmikla samfélag stendur á traustum grunni og ekki ástæða til annars en að horfa björtum augum á verkefni næstu ára.
Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár var afgreidd þann 11. desember síðastliðinn. Það er alltaf ákveðin áfangi þegar vinnu við gerð fjárhagsáætlunar lýkur enda liggur að baki hennar mikil vinna, bæði frá starfsfólki og kjörnum fulltrúum. Það er ánægjulegt að skila af sér sterkri og raunhæfri fjárhagsáætlun sem styður við þær fjölmörgu og fjárfreku fjárfestingar sem ákveðið hefur verið að ráðast í á næstu árum. Góð samstaða var á meðal allra kjörinna fulltrúa í sveitarstjórninni og var áætlunin afgreidd samhljóða. Það er afar mikilvægt að góður samhljómur ríki um svo stór mál eins og fjárhagsáætlun og gefur það henni aukið vægi. Það var niðurstaða um að áætla tekjur varfærnislega þótt allar líkur séu á því að tekjur muni aukast til muna á næstu árum. Rekstur sveitarfélagsins gengur vel og íbúum fjölgar. Þrátt fyrir að útlit sé fyrir að tekjur sveitarfélagsins muni aukast á næstu árum, er mikilvægt að missa ekki sjónar af því markmiði að halda vel utan um rekstur sveitarfélagsins. Íbúarnir eiga að gera þær kröfur til kjörinna fulltrúa að þeir fari vel með skattfé þeirra, við erum á réttri leið.
Á þessu kjörtímabili höfum við t.d lækkað fasteignagjöld bæði á einstaklinga og fyrirtæki og tekið upp frístundastyrk auk þess sem leikskólagjöld eru með því lægsta sem þekkist. Það hefur verið aðalatriðið hjá okkur sem stöndum að Á-listanum frá upphafi kjörtímabilsins að staðið verði vörð um góðan rekstur, við höldum áfram að byggja upp innviði og efla enn frekar þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.
Fjárfest til framtíðar
Stærsta verkefnið á næsta ári er áframhaldandi uppbygging við Grunnskólann á Hellu og íþróttamannvirki. Stefnt er að því að hægt verði að taka í notkun nýjan gervigrasvöll í tengslum við Töðugjaldahátíðina næsta sumar. Völlurinn verður búinn hitalögnum og að auki upplýstur svo notkunarmöguleikarnir verði sem mestir. Við höfum stórar og metnaðarfullar hugmyndir um uppbyggingu íþróttaaðstöðu í sveitarfélaginu á næstu árum, við ætlum okkur að vera í fremstu röð á landsvísu þegar kemur að íþróttamannvirkjum og aðstöðu til heilsueflingar. Fjölda annarra verkefna verður einnig sinnt eins og t.d viðhaldi gatna og göngustíga. Það er nauðsynlegt að byggja undir innviði sem nýtast barnafólki en það þarf líka að huga að hagsmunum fleiri hópa eins og t.d eldra fólks.
Eldri íbúar eru ört stækkandi hópur og mikilvægt að þeir sem stjórna sveitarfélaginu hverju sinni séu vel meðvitaðir um þá staðreynd. Við stöndum á ákveðnum tímamótum hvað varðar öldrun þjóðarinnar og ljóst að við erum að verða eldri og viðhorfin sífellt að breytast varðandi hvað við viljum fá út úr lífinu. Hvort sem það er þegar við erum hætt að vinna eða farin að draga úr vinnu. Nú hafa áhugasamir og traustir aðilar sýnt áhuga á að hefja uppbyggingu þjónustuíbúða, eins konar lífsgæðakjarna, við Dvalarheimilið Lund á Hellu. Þessa dagana er til skoðunar hjá sveitarfélögunum sem standa að starfseminni á Lundi hvernig hægt væri að liðka til fyrir því að slík uppbygging geti orðið að veruleika. Náist samkomulag á milli aðila og ríkisins gæti orðið til áhugavert og aðlaðandi umhverfi, sem tryggði samveru og öryggi um leið uppfyllti ólíkar þarfir fólks.
Tryggjum heilbrigðisþjónustu í heimabyggð
Örugg og öflug heilbrigðisþjónusta er grundvallarforsenda fyrir því að sveitarfélag eins og Rangárþing ytra geti stækkað og dafnað. Það er skýlaus krafa okkar að hér sé rekin heilsugæsla og aðgangur að lækni sé tryggður allan sólarhringinn 365 daga á ári. Það hefur borið á því eins og t.d nú um hátíðarnar að engin læknir er á vakt í Rangárvallasýslu. Ég lít svo á að þessi mönnunarvandi sé ein helsta áskorunin sem þarf að leysa úr á nýju ári. Ljóst er að við þetta ástand verður ekki unað og nauðsynlegt að sveitarfélögin í Rangárvallarsýslu taki höndum saman og leiti varanlegra lausna. Við eigum að geta unnið saman sem ein heild að því að laða að okkur lækna og ráða þá í fullt starf með fasta búsetu á svæðinu.. Það eru í kringum 800 íslenskir læknar starfandi erlendis, er ég þess fullviss um að stór hluti þeirra væru tilbúnir að koma heim til starfa ef vinnuaðstæður og kjör þeirra væru viðunandi. Þetta er brýnt byggðarmál, þetta er fjölskyldumál og þetta er samfélagsmál sem við munum taka á dagskrá að fullum þunga á nýju ári.
Við búum svo vel í okkar sveitarfélagi að vera rík af dýrmætum náttúruauðlindum og fjölmörg tækifæri til staðar að gera enn meira úr þeim. Við erum stolt af verkum okkar á kjörtímabilinu og teljum okkur eiga heilmikið inni. Ég veit að okkur mun farnast vel á árinu 2025 við að smíða okkar eigin gæfu, með samvinnu, gleði og bjartsýni að leiðarljósi.
Mig langar að óska öllum íbúum Rangárþings ytra gleðilegs árs og farsældar á komandi ári fyrir hönd Á-listans.
Eggert Valur Guðmundsson,
oddviti Á-listans og sveitarstjórnar Rangárþings ytra