17. júní ræða oddvita 2024

Ágætu þjóðhátíðargestir. Í dag fögnum við 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands. Mörg okkar standa í þeirri trú að Ísland hafi orðið sjálfstætt ríki á þessum degi, 17. júní fyrir 80 árum. Staðreyndin er sú að þá 17. júní árið 1944 hafði Ísland verið fullvalda ríki síðan 1. desember 1918. En 17. júní 1944 varð Ísland lýðveldi, konungur Danmerkur var ekki lengur þjóðhöfðingi landsins heldur skyldu Íslendingar hafa eigin forseta sem þjóðhöfðingja. Það sem breyttist var stjórnskipan landsins en með fullveldinu 1918 varð landið með formlegum hætti sjálfstætt ríki. 

En auðvitað fögnum við sjálfstæðinu á þessum degi en ekki bara lýðveldisstofnuninni þó að formlegt sjálfstæði hafi ekki komið til á þessum degi. Hugsanlegt er að vægi 17. júní hafi aukist smám saman á kostnað 1. desember vegna þess oftast er betra veður á þessum árstíma og auðveldara að halda hátíð utandyra.

Eftir að stjórnvöld lýstu því yfir árið 1945 að 17. júní yrði formlegur þjóðhátíðardagur Íslendinga var 1. des í raun ýtt til hliðar. Þessi dagsetning varð fyrst og fremst fyrir valinu vegna þess að 17. Júní 1811 var fæðingardagur eins helsta forustumanns Íslendinga á 19. öld. Þessi maður fór fyrir kröfum Íslendinga um sjálfstæði og mótaði þá sýn að Ísland ætti að vera sjálfstætt nútímaríki. Hér er að sjálfsögðu átt við sjálfstæðishetjuna Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Flest okkar leiða hugann að því hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við sem eldri erum hugsum þá oftar en ekki um í hvernig þjóðfélagi börnin okkar og barnabörn munu lifa. Rannsóknir sýna fram á að vanlíðan í samfélaginu sé að aukast ekki hvað síst  hjá börnum og ungmennum. Sjálfsmat ungmenna gefur til kynna að vanlíðan þeirra hafi verið aukast á undanförnum árum.  En það hefur ekki alltaf verið viðurkennt að börn geta þróað með sér kvíða og þunglyndi. En hvernig getum við brugðist við þessari þróun?

Rangárþing ytra er aðili að verkefninu Heilsueflandi samfélag eins og fjölmörg önnur sveitarfélög. Nú er vitundarvakning á meðal stjórnenda sveitarfélagsins að leggja enn meira að mörkum svo sveitarfélagið verði í fremstu röð hvað varðar heislueflingu allra íbúa ekki síst barna og ungmenna.

Það er staðreynd að mikil skjánotkun á snjallsímum og spjaldtölvum hefur slæm áhrif á geðheilsu. Fyrir utan það að netumræðan og það umburðarleysi sem oft einkennir þann sem er innan gæsalappa “virkur í athugasemdum” gengur oft á tíðum alltof langt og mikilvægt að reyna sporna við slíku ef það er nokkur kostur.

Það má ekki gerast að unga fólkið okkar upplifi að framtíðin sé vonlaus. Hlutverk sveitarfélagsins gæti meðal annars verið að skapa umgjörð hvað varðar uppbyggingu íþróttamannvirkja og standa þétt við bakið á hvers konar félagsstarfsemi. Við erum svo heppinn í þessari sveit að vera með starfrækt feikiöflugt félag eldri borgara sem heldur úti margvíslegri starfsemi þar á meðal heilsueflingu sinna félaga. Ég leyfi mér fyrir hönd sveitarstjórnarinnar að boða enn meiri kraft en hefur verið í allskonar heilsutengda starfsemi fyrir alla.

Það er undir okkur sjálfum komið  hvernig við viljum þróa og móta okkar samfélag. Ef við höfum hugmyndir eigum við að þróa þær og koma þeim á framfæri og fylgja þeim eftir. Það skiptir nefnilega engu máli þótt þú sért slegin niður það sem öllu skiptir er hvað þú gerir þegar þú stendur upp aftur. 

Við þurfum að spyrja okkur hvernig samfélagi við viljum búa í? Erum við sátt við hlutina eins og þeir eru núna? Ef ekki hvað getum við gert til þess að bæta úr því, ekki hvað nágranninn ætlar að gera fyrir okkur. 

Að mínu mati er Rangárþing ytra gott samfélag og hér er gott að búa. Það þekki ég sjálfur ágætlega eftir að hafa búið hér lengi og flutt i burtu og komið til baka. Innan okkar sveitarfélags eru náttúruauðlindir á hverju strái en kannski er mesta auðlindin fólkið sem hér býr. En munum eftir okkur sjálfum, og þeim sem okkur þykir vænt um, munum eftir náunganum, samfélaginu og umhverfinu. Þannig gerum við hvern dag betri og styrkjum í leiðinni samfélagið okkar. Pössum uppá á lýðræðið og verum stolt af því.

Innilega til hamingju með daginn öll.

Eggert Valur Guðmundsson, 

Oddviti Á-lista og sveitarstjórnar Rangárþings ytra.