Ágrip oddvita – Nóvember 2022

Nú þegar um 6 mánuðir eru liðnir frá sveitarstjórnarkosningum er ekki úr vegi að staldra aðeins við. Þegar ný sveitarstjórn tekur við eru breytingar óhjákvæmilega og önnur nálgun við úrlausn verkefna. Þó er mikilvægt að flana ekki að neinu og gleypa ekki heiminn í einum bita. Það er sjálfsagt og eðlilegt að íbúar sveitarfélagsins hafi tækifæri til þess að fylgjast með hvað sveitarstjórn er að fást við hverju sinni og einn liður í því er breytt fundarform á sveitarstjórnarfundum og beinar útsendingar, komið hefur í ljós að talsvert áhorf er á þessa fundi og er það jákvætt. 

Fjárhagsáætlun lögð fram

Þann 23. nóvember síðastliðinn var lögð fram fjárhagsáætlun vegna ársins 2023 til fyrri umræðu í sveitarstjórn. Helstu lykiltölur í þeirrri áætlun eru þær að gert er ráð fyrir 110 milljóna króna afgangi af rekstri sveitarfélagsins á næsta ári, lántökur verði um 630 milljónir en ráðgert er að framkvæma fyrir um 900 milljónir alls. Þar er ný viðbygging við Grunnskólann á Hellu langstærsta framkvæmdin, þó gætt verði að því að nauðsynlegt viðhald á eignum sveitarfélagsins verði einnig sinnt. Vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins hefur verið í góðu samstarfi allra sveitarstjórnarfulltrúa og starfsmanna og fyrir það ber að þakka. Fjárhagsáætlunin er lykiltæki við rekstur sveitarfélagsins en hugsanlegt er að áætlunin taki einhverjum breytingum á milli fyrri og seinni umræðu.

Það er æskilegt að sem mest samstaða náist um málefnin og framkvæmd verkefna. Það þýðir hins vegar ekki að óheimilt sé að taka ákvarðanir um neitt nema algjör samstaða sé um mál. Kjörnir fulltrúar verða að axla ábyrgð á verkum sínum og standa og falla með þeim ákvörðunum sem teknar eru. Fjárhagsleg staða Rangárþings ytra er ágæt og sveitarfélagið vel til þess fallið að takast á við stærstu framkvæmd á seinni árum sem er uppbygging skólamannvirkja. Grunn- og leikskólar sveitarfélagsins hafa á að skipa mjög hæfu starfsfólki og ég tel að traust samfélagsins til þessara lykilstofnana sé gott.

Uppbygging atvinnulífs

Eitt af stóru verkefnum nýrrar sveitarstjórnar hefur verið að leita að nýjum atvinnutækifærum og hefur undirbúningur og vinna við uppbyggingu Grænna iðngarða verið fyrirferðamikil, auk þess sem nokkur önnur áhugaverð verkefni eru í vinnslu sem kynnt verða á næstu vikum. Það er eitt af helstu markmiðum nýs meirihluta að stuðla að fjölbreyttari atvinnutækifærum í sveitarfélaginu, og stuðla að uppbyggingu atvinnulífs með markvissum hætti. Til þess að byggja upp öflugt samfélag verða allir  að standa saman og grípa tækifærin þegar þau bjóðast, sem aftur skilar sér í traustri og öruggri atvinnu fólksins okkar og samfélagi þar sem fólk vill búa og starfa. 

Það eru bjartir tímar framundan og næg verkefni á borðinu. Ég hlakka til að vinna að þeim með íbúum, starfsfólki sveitarfélagsins, kjörnum fulltrúum og öllum þeim sem að verkefnunum koma.

Eggert Valur Guðmundsson
Oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra