Ávarp oddvita á minningarathöfn um fórnarlömb umferðarslysa

Eftirfarandi ávarp flutti Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra, á minningarathöfn um fórnarlömb umferðaslysa sem haldin var í dag, 20. nóvember 2022 í húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu.

“Ágæta samkoma.

Flest okkar þekkja einhvern, eða kannast við fólk, sem lent hefur í alvarlegum umferðarslysum. Eftir því sem ég kemst næst hafa um það bil 200 einstaklingar látist í umferðarslysum hér á landi á síðustu 10 árum, og þúsundir slasast alvarlega. Þetta eru óhugnarlegar tölur og minningardagur eins og þessi er upplagður til þess að hver og einn spái í ábyrgð sína verandi þátttakandi í umferðinni.

Ástæður umferðarslysa eru margvíslegar þó að bílar séu að verða betri og öruggari. En þeir verða líka öflugri og kraftmeiri og við það eykst hraðinn og jafnframt slysahættan. Vegakerfið er líka eins og það er og nauðsynlegt víða að breikka vegina og aðskilja akstursstefnur. Helsti áhættuhópurinn eru ungir og reynslulitlir ökumenn aðallega ungir strákar á kraftmiklum bílum. Einnig tel ég talsverða hættu stafa af erlendum ferðamönnum á bílaleigubílum sem eru óvanir akstri á íslenskum þjóðvegum og aðstæðum. Í okkar héraði búum við gríðarlega vel að öflugum viðbragðsaðilum. Björgunarsveitirnar á Hellu og Hvolsvelli hafa fyrir löngu skapað sér orðspor sem framúrskarandi viðbragðsaðilar ásamt vel þjálfuðu sjúkraflutningafólki og lögreglu.

Þess má einnig geta að nú er í gangi vinna innan stjórnar Brunavarna Rangárvallarsýslu um frekari uppbyggingu varðandi betri tækjabúnað og fleira. Það er eitt af hlutverkum þeirra sem starfa að sveitarstjórnarmálum hverju sinni að gefa þessum málaflokki enn meiri athygli en hluti af því er einmitt kraftmikill stuðningur við björgunaraðila í heimahéraði. Umferðarslys eru sorglegur hluti af tilveru okkar og það sem verra er, hvað hátt hlutfall þeirra sem láta lífið er ungt fólk í blóma lífsins. En staðreyndin er sú að flest þessi slys er til komin vegna mannlegrar hegðunar en ekki vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Mig langar í lokin að þakka okkar frábæru viðbragðaðilum fyrir að vera flottar fyrirmyndir og gleyma því ekki að starf ykkar oft við óbærilega erfiðar aðstæður skiptir okkur miklu máli og fyrir það ber að þakka á degi sem þessum.”

*Myndirnar eru fengnar af Facebook-síðu Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu