Áramótapistill 2023/2024

Við áramót eru kjörinn tími til þess að setja sér ný markmið og meta árangur af því sem liðið er. Heilt yfir hefur árið 2023 að okkar mati verið gott  fyrir íbúa Rangárþings ytra, en eflaust má alltaf finna eitthvað sem betur hefði mátt fara. En við kjósum að horfa fram á veginn með áhuga og vilja til góðra verka.

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024 var samþykkt af sveitarstjórn nú um miðjan desember. Í þeirri áætlun er reiknað með að afgangur af rekstri A og B hluta samstæðunnar verði um 193 milljónir króna. Einnig er gert ráð fyrir að framkvæma fyrir rúman 1,2 milljarð og ber þar hæst áframhaldandi vinna við stækkun Grunnskólans  á Hellu auk framkvæmda við nýtt íþróttavallarsvæði og endurbætur á skóla og Menningarmiðstöðinni á Laugalandi, auk fjölda annarra smærri verkefna.

Það er full ástæða til bjartsýni, sveitarfélagið okkar er byggt á traustum grunni og því ekki ástæða til annars en að horfa björtum augum á verkefni næstu ára. Skólarnir okkar eru hjarta samfélagsins og ánægjulegt fyrir okkur að fá að taka þátt í því að endurbæta og stækka vinnustaði barnanna okkar. Samvinna innan sveitarstjórnar og nefnda hefur verið með miklum ágætum á árinu og ástæða til þess að þakka sérstaklega fyrir það.

Á þeim 18 mánuðum sem liðnir eru frá kosningum hefur tekist að sigla fjölmörgum verkefnum í höfn.

  • Frístundastyrk barna og ungmenna komið á, sem hvetur til tómstundaiðkunar barna og ungmenna og er ánægjulegt hvað nýting hans á fyrsta ári hefur verið góð.
  • Bætt hefur verið við leiktækjakost skólanna og beðið er eftir fleiri leiktækjum erlendis frá.
  • Fyrsti áfangi stækkunar skólahúsnæðisins á Hellu er innan kostnaðaráætlunar. Komið var á fót byggingarnefnd sem hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdum í góðri samvinnu við forstöðumann þjónustmiðstöðvar.
  • Tekist hefur að hafa til staðar nægt lóðaframboð fyrir íbúða- og atvinnuhúsnæði.
  • Álagningarprósenta fasteignagjalda hefur verið lækkuð úr 0,33% í 0,30% til þess að koma á móts við hækkað fasteignamat. Eru fasteignagjöld í Rangárþingi ytra mun lægri en í þeim sveitarfélögum sem við berum okkur oftast saman við.
  • Átak hefur verið gert í endurbótum á umferðarmerkingum með öryggi gangandi vegfarenda í huga.
  • Unnið hefur verið að því að uppbyggingaráform vegna virkjana í sveitarfélaginu skilji eftir verðmæti sem nýtast samfélaginu öllu til framtíðar, niðurstaða þeirrar vinnu verður kynnt fljótlega á nýju ári.
  • Komið hefur verið á beinum útsendingum frá sveitarstjórnarfundum og breyttu fundarformi sveitarstjórnarfunda, einnig er boðið upp á viðtalstíma við kjörna fulltrúa. Fljótlega á nýju ári verður auglýst eftir áhugasömu fólki til starfa í hverfaráðum innan sveitarfélagsins.
  • Stofnaður hefur verið menningarsjóður sem hefur það hlutverk að auðga menningarstarf í sveitarfélaginu, auk þess að eldri borgara kaffisamsæti er orðið árlegur viðburður í nóvember ár hvert þar sem meðal annars er valinn Samborgari ársins.
  • Komið hefur verið á fót 25% starfi fjölmenningarfulltrúa sem hefur það hlutverk að leiðbeina íbúum af erlendum uppruna sem eru búsettir eða vilja setjast að í sveitarfélaginu.
  • Bílaþvottaplan hefur verið standsett í sveitarfélaginu en mikil eftirspurn hefur verið eftir því lengi.
  • Lagt var til 4 milljóna króna stofnframlag til akstursíþróttadeildar Umf. Heklu til framkvæmda við nýtt mótorkrosssvæði.
  • Aðstoð veitt við að koma upp viðamiklu trjágræðlingaverkefni í Gunnarsholti, og  unnið áfram að verkefninu “Grænum iðngörðum” á Strönd auk fjölmargra annarra verkefna sem ekki er hægt að tína til í stuttum pistli.

Það er ljóst að það er kraftur í íbúum sveitarfélagsins og mikil vaxtarbroddur er í ferðaþjónustunni. Ferðaþjónustan er að verða einn mikilvægasti þátturinn í atvinnulífi sveitarfélagsins, enda margar af að perlum íslenskrar náttúru staðsettar í okkar héraði.

Það er mikill vilji til staðar hjá okkur að ná árangri og byggja upp gott samfélag þar sem aðaláherslan er lögð á vellíðan allra íbúa.

Eitt af okkar helstu markmiðum er að í áætlunum sveitarfélagsins sé velferð barnafjölskyldna í fyrirrúmi og áhersla lögð á að þjónusta við fjölskyldufólk verði framúrskarandi. Við viljum að sveitarfélagið sé eftirsóknarverður valkostur til búsetu og að fjölgun íbúa þróist á eðlilegan hátt.

Við búum yfir dýrmætum auðlindum í okkar sveitarfélagi og tækifærin fjölmörg til þess að búa til enn meiri verðmæti. Tveir af helstu virkjanakostum landsmanna eru staðsettir í Rangárþingi ytra. Það er Hvammsvirkjun og Búrfellslundur, sem er áformað vindorkuver rétt austan við Sultartangavirkjun. Báðir þessir virkjanakostir eru skilgreindir í nýtingarflokki rammaáætlunar og mun því á nýju ári fara mikil vinna í að fjalla um og taka afstöðu til leyfisumsókna varðandi þær framkvæmdir. Við höldum því til fundar við nýtt ár með bjartsýni og gleði í farteskinu.

Við viljum nota tækifærið og óska samstarfsfólki okkar í sveitarstjórn, starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins gleðilegs nýs árs með þökkum fyrir samstarf og góða samvinnu á því ári sem er að líða.

Eggert Valur, Margrét Harpa, Þórunn Dís og Viðar Már.