Breytum til og verum fagleg

Nú þegar stutt er til kosninga langar mig til þess að þakka íbúum Rangárþings ytra fyrir hversu vel hefur verið tekið á móti frambjóðendum Á listans, en hann er framboð áhugafólks um sveitarstjórnarmál. Eitt það helsta sem fólk hefur haft skoðanir á er ráðning nýs sveitarstjóra. Stefna Á listans er að auglýsa eftir faglegum sveitastjóra sem hefur ekki beina tengingu við stjórnmálaflokka og er ekki jafnfamt kjörinn fulltrúi.

Sveitarstjórinn er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og hans aðalhlutverk er að framkvæma þær ákvarðanir sem sveitarstjórn tekur hverju sinni. Hann er æðsti yfirmaður allra starfsmanna sveitarfélagsins og þegar slíkur starfsmaður er einnig kjörinn fulltrúi , skapast að mínum dómi hætta á að hann gangi flokkspólitískra erinda í starfi sínu. Með slíku fyrirkomulagi er hætta á að það verði til þöggunarmenning og vandræðagangur við úrvinnslu verkefna, því sveitarstjórinn er þá í raun sinn eigin yfirmaður.

Mikilvægt er að sveitarstjórinn þarf að hafa reynslu af stjórnun og starfsmannahaldi auk þess að vera vandaður og óhlutdrægur í störfum sínum. Nauðsynlegt er að einstaklingurinn sem valinn er til verksins sé sveitarstjóri allra íbúa, en ekki aðeins þeirra sem kusu hann til valda.

Sveitarstjórinn er prókúruhafi sveitarsjóðs sem veltir á þriðja milljarð króna árlega. Nú stendur fyrir dyrum stærsta fjárfesting sem sveitarfélagið hefur ráðist í, sem er viðbygging við grunnskólann á Hellu. Að mínum dómi er það ekki besta leiðin að flokkspólitískur sveitarstjóri sem er yfirmaður sjálfs síns sé settur í þá stöðu.

Á listinn býður kjósendum í Rangárþingi ytra valkost um breytingar og ég hvet alla íbúa sveitarfélagsins til þess að kynna sér áherslur framboðsins eða kíkja við á kosningaskrifstofunni að Þrúðvangi 6 á Hellu. Brjótum upp þá kyrrstöðu sem hefur verið ríkjandi allt of lengi og veljum Á listann í Rangárþingi ytra á kjördag.

Eggert Valur Guðmundsson
Oddviti Á listans í Rangárþingi ytra