Traustur rekstur í Rangárþingi ytra

Pistill oddvita.

Ársreikningur sveitarfélagsins Rangárþings ytra var tekinn til fyrri umræðu síðastliðinn miðvikudag, 10. apríl 2024. Rekstarafkoma sveitarfélagsins er mjög ánægjuleg fyrir íbúana og ekki síst fyrir okkur sem stöndum að framboði Á- listans. Þessi ársreikningur sem nú er lagður fram til umfjöllunar sýnir mjög vel rekstaraafkomu sveitarsjóðs á þessu fyrsta heila rekstrarári nýs meirihluta. Niðurstaðan sýnir 240 milljóna króna afgang af rekstri A-hluta, en svokallaður A-hluti merkir aðalsjóð sveitarfélags sem sinnir starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármagnaður með skatttekjum. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er um 70%, þrátt fyrir mestu framkvæmdir í sögu sveitarfélagsins frá upphafi. Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu sérstaklega í ljósi þess að engin eignasala var á árinu 2023.

Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið við völd í þessu sveitarfélagi nánast sleitulaust frá því sveitarfélagið var stofnað hefur lagt mikla áherslu á undanförnum árum að selja eignir sveitarfélagsins á það jafnt við um íbúðir og landareignir. Það vekur líka athygli að þegar rýnt er í ársreikninga undanfarinna ára að þar virðist veruleg eignasala vera regla, frekar en undantekning, sem hleypur á hundruðum milljóna. Með því að afla tekna með þeim hætti, að vera stöðugt að selja eignir og losa með þeim hætti um fjármagn, sýnir ekki raunstöðu reksturs sveitarsjóðs hverju sinni. Þessi staðreynd, sem er aðgengileg í opinberum skjölum, var aldrei rædd í aðdraganda síðustu kosninga. Fulltrúar D-lista hafa staðið vaktina ágætlega að veita meirihlutanum aðhald en oddviti meirihlutans á síðasta kjörtímabili, sem nú er kjörin fulltrúi D-lista í minnihluta, minntist aldrei á þessa staðreynd í kosningabaráttunni þegar fjármál sveitarfélagsins voru á dagskrá.

Í mínum huga eru helst þrjár ástæður fyrir þessum góða árangri sem nú liggur fyrir í ársreikningi 2023:

  • Mjög hæft og reynslumikið lykilstarfsfólk sem stýrir stofnunum og sviðum sem leggur sig fram um að sá rekstur sem þau bera ábyrgð á fari ekki fram úr þeim fjárheimildum sem ákveðin hefur verið í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.
  • Mikill vöxtur í ferðaþjónustunni í sveitarfélaginu sem skilar auknum tekjum í sveitarsjóð.
  • Samstillt sveitarstjórn sem hefur borið gæfu til þess að ræða sig niður á lausnir á málum í stað þess að eyða tíma í rifrildi og argaþras.

Framundan á næstu árum eru gríðarmiklar framkvæmdir, en þær eru þessar helstar;

  • Áframhald viðbyggingingar við Grunnskólann á Hellu.
  • Uppbygging á Laugalandi, bæði hvað varðar viðhald og nýframkvæmdir til þess að uppfylla nútímakröfur í skóla og menningarstarfi.
  • Framkvæmdir við nýjan upplýstan gervigrasvöll í fullri stærð á Hellu og aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir en stefnt er að því að opnunarleikur nýs knattspyrnuvallar verði í júní 2025.

Það er ljóst að rekstur sveitarfélagsins er traustur og sýnir niðurstaða ársreikningsins að við erum á réttri leið.

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra