Frístundastyrkir fyrir börn og unglinga í Rangárþingi ytra!

Sveitarstjórn samþykkti í dag, 9. nóvember 2022, tillögu Heilsu-, íþrótta- og tómstundanefndar um frístundastyrki fyrir börn og unglinga. Styrkurinn verður 50.000 kr. fyrir árið 2023 og miðað er við fæðingarár barnins við úthlutun á frístundastyrk, 6 til 16 ára. Málinu verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar og sveitarstjóra falið að leggja fram tillögu að reglum um fyrirkomulag á frístundastyrk á næsta reglulega fundi sveitarstjórnar.

Tilgangur frístundastyrksins er fyrst og fremst að öll börn og unglingar í Rangárþingi ytra geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Rannsóknir sýna einnig að þátttaka barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi, undir stjórn ábyrgs leiðbeinanda, hefur forvarnargildi og veitir þeim líkamlega og andlega vellíðan.