Áramótakveðja Á-listans

Ágætu íbúar Rangárþings ytra. Eftir sveitarstjórnarkosningar í vor var ljóst að Á-listinn hafði betur í spennandi kosningum og erum við mjög þakklát fyrir það traust sem okkur var sýnt. Við lögðum fram metnaðarfulla stefnu og málaskrá sem höfðaði greinilega til kjósenda. Fyrir okkur, sem tókum sæti fyrir hönd Á-listans í sveitarstjórn Rangárþings ytra, hefur kjörtímabilið verið viðburðaríkt það sem af er. Við auglýstum eftir nýjum sveitarstjóra fljótlega eftir kosningar og fengum margar ágætar umsóknir. Fagleg vinna leiddi til þess að einhugur var í sveitarstjórn að ráða Jón G. Valgeirsson sem sveitarstjóra og hóf hann störf um miðjan ágústmánuð. 

Á þessum sex mánuðum sem liðnir eru frá kosningum höfum við verið að fóta okkur í hlutverkinu og hefur það að okkar mati gengið mjög vel. Nýtt fólk hefur tekið að sér nefndarformennsku í fagnefndum sveitarfélagsins og unnið er að því að leggja nýjar samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins fyrir sveitarstjórn. Við sem stöndum að framboði Á-listans erum með háleit markmið fyrir hönd sveitarfélagsins og íbúa þess. Við ætlum að leggja okkur öll fram um að viðhalda góðu samfélagi og laða til okkar fólk sem vill búa hjá okkur og vera hluti af góðu samfélagi. 

Í kosningabaráttunni í vor vorum við með áherslur sem við vildum sjá fram ganga. Þá gæti fólk spurt: „Fyrst þið unnuð kosningarnar er þá nokkuð því til fyrirstöðu að standa við þau kosningaloforð sem þið lofuðuð?“ Við segjum nei, það er ekkert því til fyrirstöðu! Við munum standa við allt sem við kynntum fyrir kosningar, en það er ekki hægt að gera það allt á nokkrum mánuðum. Við þurfum tíma en munum standa við það sem við boðuðum, til þess erum við kjörin og undir því trausti ætlum við að standa.

Hvað er svo framundan á nýju ári?

Það er okkar íbúanna að móta það samfélag sem við viljum búa í. Það getur verið áskorun falin í því að byggja upp samheldið og gott samfélag, þar sem þéttbýli og dreifbýli er hluti af sama sveitarfélaginu, en við teljum að tillaga okkar um hverfaráð hjálpi til við að skapa þá einingu sem þarf til. Við höfum það sem af er árinu sett á dagskrá fjölmörg mál sem of langt er að telja hér upp í stuttum pistli. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er mikilvægasta stjórntækið sem við kjörnu fulltrúar höfum við stjórn sveitarfélagsins. Var hún unnin í góðu samstarfi allra kjörinna fulltrúa og starfsfólki sveitarfélagsins. Var fjárhagsáætlunin samþykkt samhljóða um miðjan desember en eftir henni ber okkur að vinna, enda eiga að koma fram í henni helstu markmið og áherslur sveitarstjórnar hverju sinni.

Eitt af því sem við höfum komið til leiðar eru beinar útsendingar frá sveitarstjórnarfundum með breyttu fundarformi. Við höfum m.a verið í sambandi við aðila sem hafa áhuga fyrir því að koma upp og hefja rekstur byggingavöruverslunar á Hellu og skýrist það vona fljótlega á nýju ári hvort af því verður. Við höfum einnig átt fundi með fjölmörgum aðilum sem hafa lýst áhuga sínum á að koma á fót atvinnurekstri hjá okkur og margt spennandi er því í farvatninu. Okkar svæði hefur lengi verið eitt af þeim landssvæðum þar sem atvinnutekjur eru hvað lægstar, við verðum að finna leiðir til þess að breyta því. Það má einnig minnast á það að í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins á næsta ári er fjármagn til þess að fara í úttekt á mannvirkjum sveitarfélagsins á Laugalandi en það húsnæði er farið að kalla á verulegt viðhald og breytingar eftir margra ára sinnuleysi. Við hvetjum ykkur íbúa, sem áhuga hafa á sveitarstjórnarmálum, að fylgjast með fundum sveitarstjórnar og í framhaldinu að láta rödd ykkar heyrast. Á næsta ári verða mörg og krefjandi verkefni og það stærsta er viðbygging við Grunnskólann á Hellu, auk þess eru fjölmörg spennandi verkefni í gangi og við erum full tilhlökkunar að takast á við þau. Við höfum frá því um kosningar átt mjög gott samstarf við fulltrúa minnihlutans og fyrir það ber að þakka.

Við þökkum starfsfólki sveitarfélagsins og íbúum fyrir gott samstarf og óskum ykkur öllum velfarnaðar á nýju ári. 

Eggert Valur Guðmundsson 

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir 

Erla Sigríður Sigurðardóttir 

Þórunn Dís Þórunnardóttir