Fjárhagsáætlun 2026-2029
2509032
Seinni umræða.
Fjárhagsáætlun Rangárþings ytra 2026-2029 lögð fram til afgreiðslu í seinni umræðu.
Áætlaðar heildartekjur Rangárþings ytra (A og B hluta) árið 2026 nema alls 4.472.250 mkr. Rekstrargjöld eru áætluð 3.681.666 mkr. og þar af reiknaðar afskriftir 219.704 mkr. Fjármagnsgjöld eru áætluð 224.531 mkr. Rekstrarniðurstaða er áætluð jákvæð um 346.350 mkr.
Veltufé frá rekstri er 650.017 mkr. Í eignfærða fjárfestingu 1.011.967 mkr og nýrri lántöku að upphæð 567.000 mkr. á árinu 2026 aðallega vegna framkvæmda við skólasvæði á Hellu. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2026 alls 4.272.276 mkr og eigið fé 4.418.510 mkr. Eignir í árslok eru áætlaðar 8.690.787 mkr.
Framlegðarhlutfall 2026 er áætlað 17,7.
Veltufjárhlutfall 2026 er áætlað 0,97.
Eiginfjárhlutfall 2026 er áætlað 0,50.
Skuldaviðmið skv. reglugerð 500/2012 er áætlað 70%.
Skuldahlutfall er áætlað 95,5%.
Rekstrarjöfnuður þriggja ára skv. sveitarstjórnarlögum er áætlaður jákvæður um 1.063.249 mkr.
JGV og EÞI tóku til máls.
Samþykkt samhljóða.
Bókun D-lista:
D listinn þakkar fulltrúum Á listans fyrir gott samstarf við gerð áætlunarinnar. (EÞI, BG, GMÞ)
Bókun Á-lista:
Á-listinn vill þakka fulltrúum D listans fyrir gott samstarf við gerð áætlunarinnar. Það er ánægjulegt að samþykkja sterka og árangursríka fjárhagsáætlun nú þegar líður að lokum kjörtímabilsins. Allt kjörtímabilið hefur verið í forgangi að tryggja farsæld og velferð íbúanna og framkvæma í mikilvægum innviðum sveitarfélagsins. Þar sem framtíðarsýn sem styður við börn, fjölskyldur og atvinnulíf hefur verið í forgrunni.
Á þessu kjörtímabili hefur verið ráðist í mikla uppbyggingu í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins með verulegum framkvæmdum í bættu húsnæði, aðstöðu og þjónustu við nemendur og starfsfólk. Þá hefur verið stóraukið fjármagn til íþrótta-og tómstundamála, m.a. með byggingu nýs gervigrasvallar, kaupum á landspildu úr landi Helluvaðs, þar sem eru áætlanir uppi um íþrótta og útivistarsvæði, auk nýrrar íbúabyggðar.
Rekstur sveitarfélagsins hefur á sama tíma verið traustur og skilað mjög góðum rekstrarafgangi allt kjörtímabilið. Sterkur og ábyrgur rekstur hefur orðið til þess að lántaka hefur verið mun minni en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Það sýnir ábyrgð í fjármálastjórn að geta staðið undir metnaðarfullri uppbyggingu án þess að stofna fjárhagslegu jafnvægi sveitarfélagsins í hættu.
Fulltrúar Á-lista líta svo á að góð rekstrarafkoma sé forsenda þess að hægt sé að styðja við öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Margt er þegar komið af stað eða er í undirbúningi, t.d þjónustuhús Landsvirkjunar, áform um lágvöruverðsverslun, áform um stór hótel og uppbygging og stækkun hjá Reykjagarði. Allt eru þetta verkefni sem styrkja stoðir samfélagsins til lengri tíma.
Fulltrúar Á-lista eru stoltir af þeirri framsýni sem fram kemur í þessari fjárhagsáætlun og þeim framkvæmdum sem unnið hefur verið að á kjörtímabilinu. Nauðsynlegt er að halda áfram á sömu braut með ábyrgri fjármálastjórn, halda áfram að styrkja innviði sveitarfélagsins auk þess að styðja við gott starf í grunn- og leikskólunum og standa þétt við atvinnulífið.
Allt þetta mun skapa íbúum Rangárþings ytra trausta og fjölskylduvæna framtíð. (EVG, MHG, VMÞ, BS).
Bókun sveitarstjórnar: Sveitarstjórn þakkar starfsfólki sveitarfélagsins fyrir mjög gott starf við undirbúning og gerð fjárhagsáætlunarinnar. Jafnframt vill sveitarstjórn nota tækifærið og þakka öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf á árinu. Sveitarstjórn óskar starfsfólki og íbúum Rangárþings ytra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Fylgiskjöl:


