Tillaga Á-lista um stuðning vegna kaupa á fyrstu íbúðareign í sveitarfélaginu

Á-listinn í Rangárþingi ytra hefur lagt fram tillögu um stuðning vegna kaupa á fyrstu íbúðareign í sveitarfélaginu. Tillagan var lögð fram á fundi sveitarstjórnar þann 12. nóvember 2025. Ekki er vitað til að tillaga af þessum toga hafi verið lögð fram áður.

Markmið tillögunnar að létta byrðar af fólki sem er að kaupa sína fyrstu íbúð og styðja við þá sem vilja festa rætur og eignast eigið heimili í stað þess að búa til lengri tíma á leigumarkaði. Með þessu vilja fulltrúar Á-listans auðvelda ungu fólki og fjölskyldum þeirra að stíga fyrsta skrefið inn á fasteignamarkaðinn, styrkja framtíðarbúsetu í Rangárþingi ytra og halda áfram að byggja upp fjölskylduvænt og sanngjarnt samfélag þar sem hófsemi í álagningu gjalda er höfð að leiðarljósi.

Tillaga Á-lista um endurskoðun á reglum um afslætti á fasteignagjöldum – Stuðningur vegna kaupa á fyrstu íbúðareign
Lagt fram minnisblað sveitarstjóra varðandi mögulegan stuðning vegna kaupa á fyrstu íbúðaeign í formi þess að veita tímabundinn afslátt af fasteignagjöldum. Lagt til að fela sveitarstjóra að vinna drög að reglum um stuðning við kaup á fyrstu íbúðaeign og leggja fyrir næsta reglulega sveitarstjórnarfund.

Samþykkt með fjórum atkvæðum Á-lista. Fulltrúar D-lista sitja hjá.

Bókun Á-lista: Það er mat fulltrúa Á-lista að 50% styrkur á móti fasteignagjöldum fyrsta árið til fyrstu íbúðarkaupenda geti verið árangursrík leið til að laða að ungt fólk til varanlegrar búsetu í sveitarfélaginu. Tillagan styður markmið Á-listans um fjölgun íbúa og fjölskylduvænt samfélag og er í samræmi við fyrri áherslur um hófsemi í álagningu gjalda.
Eggert Valur Guðmundsson
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Þórunn Dís Þórunnardóttir
Viðar Már Þorsteinsson