11. apríl 2018 – Sveitarstjórn
Fulltrúar Á-lista bóka í sveitarstjórn vegna máls nr. 1803008 :
“Þrúðvangur 18 – Möguleg kaup (Fannbergshúsið) : Fulltrúar Á-lista eru sannarlega fylgjandi því að tryggt sé leikskólapláss fyrir öll börn í sveitarfélaginu 12 mánaða og eldri sem þess óska, en telja að greina þurfi fyrirliggjandi þörf og framboð á leikskólarými í sveitarfélaginu áður en farið er í frekari fjárfestingu í skammtímalausnum, sem kaup á þessari fasteign væri. Frekar ætti að hefja vinnu við staðsetningu og byggingu nýs leikskóla á Hellu með framtíðina að leiðarljósi, þar sem fyrirséð er að núverandi húsnæði anni ekki framtíðarfjölda leikskólabarna í sveitarfélaginu.”
9. maí 2018 – Sveitarstjórn
Fulltrúar Á-lista bóka í sveitarstjórn vegna máls nr. 1811035:
“Fulltrúar Á-lista harma að framkvæmdir við nýja deild séu komnar um 50% yfir upphaflega kostnaðaráætlun. Upprunaleg kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 17,5 milljónir króna en nú stendur verkið í 26,3 milljónum króna og er framkvæmdum ekki lokið þar sem til stendur að skipta um þak á húsinu í sumar. Sveitarstjórn var ekki gert viðvart um þessa framúrkeyrslu á framkvæmdartíma og hefur því ekki gefist ráðrúm til að bregðast við með viðauka við fjárhagsáætlun og eru svona vinnubrögð með öllu óásættanleg og brýnt að þau endurtaki sig ekki. Á 6. fundi sveitarstjórnar 13/12 2018 brýndu fulltrúar Á-lista að gæta þyrfti aðhalds við breytingar á Þrúðvangi 18, sem og aðrar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins, því allt of algengt væri að áætlanir á verkefnum á vegum sveitarfélagsins stæðust ekki, eins og nú hefur enn og aftur komið í ljós. Fulltrúar Á-lista telja nú sem áður að þessu fjármagni sem farið hefur í kaup og endurbætur á Þrúðvangi 18 hefði betur verið varið í að flýta framkvæmd við nýja leikskólabyggingu á Hellu.
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Steindór Tómasson
Yngvi Harðason”
13. september 2018 – Sveitarstjórn
Fulltrúar Á-listan á fundi sveitarstjórnar leggja fram tillögu
“Tillaga Á-lista um greiningu varðandi nýjan leikskóla.
Fulltrúar Á lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra leggja til að farið verði í nú þegar, að greina hvernig best verði staðið að byggingu nýs leikskóla á Hellu.
Greinargerð: Staða sveitarsjóðs er með ágætum um þessar mundir og talsverður uppgangur í sveitarfélaginu. Nægt framboð á leikskólaplássum er ein af grunnforsendum þess að íbúum fjölgi áfram og byggð þróist. Núverandi leikskólabygging á Hellu annar ekki þörf miðað við það markmið sveitarstjórnar að bjóða uppá að börn fái vistun við 12 mánaða aldur. Þetta stendur samfélaginu fyrir þrifum og hamlar því að ungt fólk setjist hér að. Það á því að vera eitt af forgangsverkefnum nýrrar sveitarstjórnar að hefja undirbúning nú þegar að byggingu leikskóla á Hellu. Húsakostur leikskólans er ekki ásættanlegur m.a.er núverandi húsnæði að mörgu leyti úr sér gengið og hefur sprengt utan af sér starfsemina og þarf að nýta byggingar á tveimur starfsstöðvum, að hluta til í húsnæði sem ekki er hannað undir starfsemi leikskóla. Erfitt hefur reynst að manna leikskólann á Hellu og á þröngur húsakostur og yfirfullar deildir vafalaust sinn þátt í því. Á síðasta kjörtímabili var húsnæði leikskólans á Laugalandi stækkað með opnun nýrrar deildar sem hefur haft mjög jákvæð áhrif á allt starfið þar sem og líðan barna og starfsmanna. Undirbúningur að byggingu nýs leikskóla tekur tíma og því ekki til setunnar boðið að hefjast handa nú þegar.
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Steindór Tómasson
Yngvi Karl Jónsson
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða og byggðarráði falið að gera áætlun um vinnulag og kostnað við greiningu og samráð um verkefnið.”
28. febrúar 2019 – byggðarráð
Undirbúningur fyrir nýjan leikskóla á Hellu – Mál nr. 1810068
Skipun faghópshóps vegna undirbúnings.
Tillaga um að hefja undirbúning fyrir byggingu á nýjum leikskóla á Hellu. Lagt til að mynda faghóp sem vinni að þessum undirbúningi og eru eftirtalin tilnefnd í hópinn:
Björk Grétarsdóttir formaður Odda bs, Rósa Hlín Óskarsdóttir og Sigrún Björk Benediktsdóttir leikskólastjórar, Heimir Hafsteinsson umsjónarmaður fasteigna, Haraldur Birgir Haraldsson skipulags- og byggingarfulltrúi, Klara Valgerður Brynjólfsdóttir formaður foreldrafélags Heklukots, Haraldur Eiríksson og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir úr Byggðarráði.
Fyrstu skrefin í starfi faghópsins væru að kynna sér nýlegar framkvæmdir á þessu sviði en faghópnum er ætlað að leggja fram tillögur um hvaða útfærsla skuli valin. Reiknað er með að hópurinn hittist á fyrsta fundi í mars. Björk Grétarsdóttir kallar hópinn saman og stýrir honum.
Samþykkt samhljóða.