Samfélagsverkefni að sitja í sveitarstjórn

„Það er frábært að búa hérna. Hér er fullt af tómstundum og íþróttastarfi fyrir börn og fullorðna. Leikskólagjöldin eru með þeim lægstu á landinu og næg vinna fyrir þá sem vilja vinna,“ segir Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, bóndi og sveitarstjórnarkona í Lambhaga á Rangárvöllum.

Margrét og Ómar Helgason reka ásamt öðrum eitt stærsta nautgripabú landsins og fram undan eru framkvæmdir; byggja á nýtt fjós sem mun bæta aðstöðu til mikilla muna. Þau eiga fjögur börn svo það er oft ansi líflegt á heimilinu. Það er því eðlilegt að Margrét sé spurð af hverju hún sé að bæta sveitarstjórnarstörfum ofan á allt annað.

„Á maður ekki að taka þátt í þessu meðan maður er ungur og er að nýta sér þjónustu sveitarfélagsins? Það er góður kostur að vera sjálfs sín herra, það auðveldar það að púsla þessu saman við allt hitt. Svo á ég góða að, Ómar er góður pabbi og tengdamamma er í næsta húsi. Þetta föndrast einhvern veginn saman,“ segir Margrét sem situr í sveitarstjórn fyrir Á-lista, sem hún segir skipaðan áhugafólki um sveitarstjórnarmál, fólki úr öllum flokkum. Á-listinn hefur þrjá fulltrúa í sveitarstjórn í Rangárþingi ytra en meirihluti D-lista hefur fjóra. Margrét hefur hug á því að sitja áfram á næsta kjörtímabili.

„Já, ef ég næ kjöri. Ég tel að það sé einskonar samfélagsverkefni að vera í sveitarstjórn í svona litlum sveitarfélögum. Í litlu samfélagi þekkirðu marga og heyrir fljótt ef eitthvað bjátar á. Þá vonandi getur maður brugðist við því fljótt. Hér eru stuttar boðleiðir.“

Þegar Margrét er spurð hvaða mál brenni á fólki í sveitinni nefnir hún að orkumál og tilraunir með vindmyllur hafi farið hátt í vissum hluta sveitarfélagsins. „Svo eru það þessi klassísku mál – fólk vill góða þjónustu. Við erum mjög stolt af skólamálum hér, við rekum leik- og grunnskóla bæði á Laugalandi og á Hellu. Ég tel það vera mikinn styrk að vera með fjóra öfluga skóla. Skólar eru hjartað í samfélaginu og það styrkir byggðina að vera með skóla í dreifbýlinu.“

Hún segir að íbúum í sveitarfélaginu hafi fjölgað nokkuð að undanförnu samfara aukinni ferðaþjónustu og uppbyggingu henni tengdri. „Við erum skriðin yfir 1.600. Síðasta árið hafa um hundrað manns flutt hingað hugsa ég. Það eina sem vantar hér er húsnæði, leiguhúsnæði og minni íbúðir. Ég er að bíða eftir að einhver einkaaðili fari í gang. Maður vill síður að sveitarfélagið þurfi að standa í því.“