Yngvi Karl Jónsson, forstöðumaður á Geldingalæk, mun leiða Á-listann í Rangárþingi ytra í komandi sveitarstjórnarkosningum. Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, matráður og bóndi í Lambhaga er í 2. sæti.
Búið er að raða niður í sex efstu sæti listans en Á-listinn fékk tæp 60% atkvæða í kosningunum 2010 og var í meirihluta allt þar til Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir hætti að starfa með listanum í nóvember 2012. Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti listans, gefur ekki kost á sér áfram en hún skipaði 1. sætið í kosningunum 2010.
Sigdís Oddsdóttir, leiðbeinandi á Hellu, er í 3. sæti, Steindór Tómasson, verkamaður og sveitarstjórnarmaður á Hellu, skipar 4. sætið, Magnús H. Jóhannsson, sviðsstjóri og sveitarstjórnarmaður á Hellu, er í 5. sæti og Yngvi Harðarson, vélstjóri í Hábæ, skipar 6. sætið.
Í tilkynningu frá framboðinu segir að listann skipi öflugt fólk með reynslu af sveitarstjórnarmálum og þekkingu á innviðum samfélagsins. Á-listinn samanstandi af hópi áhugasamra íbúa um sveitarstjórnarmál og hefur framboðið öðlast dýrmæta reynslu á því kjörtímabili sem nú er senn á enda.