Gunnsteinn R: Unnið af heilindum fyrir alla

Undirritaður tók við starfi sveitarstjóra Rangárþings ytra 1. september 2010. Sveitarstjórn hafði, að afloknum sveitarstjórnarkosningum, auglýst eftir sveitarstjóra og að því er ég best veit sóttu 38 einstaklingar um starfið.

Við fjölskyldan bjuggum erlendis á þessum tíma og tókum ákvörðun um að flytjast til Íslands, nánar tiltekið á Hellu enda mál þannig lögð fyrir okkur að umhverfið þar væri fjölskylduvænt. Sveitarstjórnin öll stóð einhuga að baki ráðningu minni og undirstrikaði það hið fjölskylduvæna umhverfi sem okkur var kynnt.

Stóra verkefnið
Þegar ég tók starfinu vissi ég að fjárhagur sveitarfélagsins var alvarlegur og mikil vinna væri framundan til að bæta úr þeirri stöðu. Lagt var upp með þolinmæði en sveitarstjórnarmenn vissu allir að ýmsar fórnir þyrfti að færa til að bæta þessa stöðu og óhjákvæmilegt væri að skerða tímabundið þjónustu á ýmsum sviðum. Til að mæta taprekstri og þungum skuldbindingum varð að hagræða með því að draga úr útgjöldum. Langtímamarkmiðið var að styrkja tekjustofna og bæta þjónustu við íbúa eftir því sem fjárhagur sveitarfélagsins myndi styrkjast. Stóra markmið kjörtímabilsins var að bæta rekstrarafkomu sveitarfélagsins, efla lausafjárstöðuna, sjá til þess að sveitarfélagið næði að standa undir þeim skuldbindingum sem það þegar hafði tekið á sínar herðar og síðast en ekki síst að greiða niður skuldir. Í stuttu máli þýðir þetta að stóra verkefnið hafi verið að bæta fjárhag sveitarfélagsins.

Grafalvarleg staða
Það voru stór verkefni sem sveitarstjóri stóð frammi fyrir hjá Rangárþingi ytra haustið 2010. Suðurlandsvegur 1-3 ehf., sem sveitarfélagið átti helmingshlut í, átti í alvarlegum fjárhagserfiðleikum og ekki er ofsögum sagt að félagið hafi rambað á barmi gjaldþrots. Útstreymi fjármagns úr sjóðum sveitarfélagsins hafði verið mun meira á árinu en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Allt var fjármagnað með yfirdrætti hjá viðskiptabanka sveitarfélagsins, Arion banka. Skammtímaskuldir sveitarfélagsins voru mjög háar og lán í vanskilum. Í endurskoðunarskýrslu fyrir árið 2009 benti endurskoðandi sveitarfélagsins á eftirfarandi: „Ekki hefur verið gengið formlega frá fjármögnun áætlaðrar fjárfestingar ársins og framlengingu á skammtímafjármögnun. Við teljum ástæðu til að benda sérstaklega á óvissu um fjármögnun ársins 2010 í áritun okkar á ársreikninginn.“

Í byrjun september 2010 var fjármögnun ársins 2010 enn ófrágengin. Framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga hafði vísað frá lánsumsókn sveitarfélagsins á vormánuðum, fyrir sveitarstjórnarkosningar, vegna ótrúverðugra fjárhagsupplýsinga sem lagðar höfðu verið fram með umsókninni. Það virtist ekki standa steinn yfir steini. Meðal fyrstu verka minna var að funda með fulltrúum viðskiptabanka sveitarfélagsins og framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga, sitt í hvoru lagi.

Í viðræðum við fulltrúa Arion banka kom fram að ástæðan fyrir því að ekki væri búið að loka á yfirdráttarheimild sveitarfélagsins væri sú að breytingar hefðu orðið á stjórn sveitarfélagsins og að sveitarfélagið væri, þrátt fyrir erfiða stöðu þess, stór viðskiptavinur bankans. Þeir sögðu hins vegar að þolinmæðin væri að þrjóta og lögðu alla áherslu á trúverðugar áætlanir um eflingu fjárhags. Heimild yfirdráttarlánsins var þá 140 m.kr. og staða yfirdráttar nálgaðist þá fjárhæð. Heimildin hafði í neyð verið hækkuð til samræmis við þörfina en ekkert samkomulag var um yfirdráttinn. Forsvarsmenn bankans óskuðu eftir trúverðugum áætlunum. Í þessum viðræðum kom fram að það sem lagt hefði verið á borð fyrir bankann á undangengnum mánuðum hefði ekki staðist. Forsvarsmenn bankans sögðu að mikið átak þyrfti til að rétta af fjárhag sveitarfélagsins.

Fjármögnun fjárfestinga og framkvæmda ársins 2010 var óleyst og háar afborganir voru af langtímalánum á síðari hluta ársins 2010. Í viðræðum við framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga skein í gegn lítið traust á milli sjóðsins og sveitarfélagsins, sambærilegt við þær móttökur sem ég fékk hjá Arion banka. Ekki var til umræðu að leggja umsókn fyrir stjórn sjóðsins nema trúverðugar áætlanir lægju fyrir, að sannanlega hefði verið lagt út fyrir þeim fjárfestingum sem sótt væri um lán fyrir og að þær væru tækar til lánveitingar. Lánasjóðurinn lánar ekki í hvað sem er, lán frá honum eru bundin framkvæmdum við grunnstoðir í rekstri sveitarfélaga.

Fjármögnun áranna 2010 og 2011
Fjárhagsætlun fyrir árið 2011 var unnin af sveitarstjóra í samstarfi við starfsfólk skrifstofu, forstöðumenn stofnana og sveitarstjórn samhliða viðræðum við lánastofnanir. Í þeirri vinnu sem fram fór í tengslum við þessa endurskoðun og þeim samskiptum sem ég átti við forsvarsmenn lánastofnana breyttist viðhorf þeirra til stjórnenda sveitarfélagsins. Svo fór að Lánasjóður sveitarfélaga veitti Rangárþingi ytra 100 m.kr. fjárfestingarlán og var það greitt út í lok október 2010, sama dag og laun voru greidd hjá sveitarfélaginu. Ef þetta lán hefði ekki fengist hefði ekki verið hægt að greiða út laun frá þessum tímapunkti hvað þá að standa undir öðrum fjárhagsskuldbindingum sveitarfélagsins.

Í lok árs 2010 náðust samningar við Arion banka. Í ljósi lækkandi vaxta bauð bankinn upp á tvær leiðir við fjármögnun yfirdráttarlánsins; a) 90 m.kr. langtíma skuldabréf og 35 m.kr. yfirdráttarheimild til lengri tíma og b) 125 m.kr. yfirdráttarheimild með endurskoðun um áramót 2011/2012. Vegna áforma um bætt veltufé frá rekstri, góðra vaxtakjara á yfirdrættinum og kostnaðar við langtímalántöku var ákveðið að fara leið b.

Lokahnykkur fjármögnunar ársins 2011 var svo samningur við Lánasjóð sveitarfélaga en sjóðurinn veitti langtímalán að sömu fjárhæð og heildarafborganir allra lána sveitarfélagsins hjá sjóðnum á árinu. Lánið var 66 m.kr. og greitt inn á reikning sveitarfélagsins í byrjun maí árið 2011. Ef þetta lán hefði ekki fengist hefðu lán farið í vanskil.

Allar skuldir í skilum eftir aðgerðir
Öll lán sveitarfélagsins hafa verið í skilum frá því í lok árs 2010. Skuldir sem hlutfall af heildartekjum hafa lækkað verulega og rekstrarafkoma sveitarfélagsins hefur lagast mikið. Veltufjárhlutfall sveitarfélagsins hefur styrkst jafnt og þétt, eins og stefnt var að. Í september 2012 var tekið 60 m.kr. langtímalán hjá Lánasjóði sveitarfélaga og notað til að greiða niður yfirdráttarlán og lækka yfirdráttarheimildina um sömu fjárhæð. Lánið fékkst frá sjóðnum vegna þeirra fjárfestinga sem farið hefur verið í á kjörtímabilinu. Þessar fjárfestingar eru endurbætur á skólastofum í Grunnskólanum á Hellu, hreinsivirki fráveitu á Hellu og nýfjárfesting Vatnsveitu. Forsvarsmenn Lánasjóðsins heimsóttu sveitarfélagið vegna umsóknarinnar og lýstu þeir yfir ánægju með framkvæmdirnar og áherslur sveitarfélagsins á uppbyggingu grunnstoða í samfélaginu.

Öllum fjárhagsmarkmiðum sem stefnt hefur verið að frá síðustu sveitarstjórnarkosningum hefur verið náð til þessa en það hefur ekki verið átakalaust. Frávik í rekstri og fjárfestingum geta breytt forsendum fljótt en langan tíma tekur að laga alvarlegt fjárhagsástand þegar hægt er að færa hluti til verri vegar á einu augnabliki.

Suðurlandsvegur 1-3 ehf.
Suðurlandsvegur 1-3 ehf. var ógjaldfært félag þegar ég tók við stjórnartaumum þar, haustið 2010 og hafði svo verið um nokkurt skeið. Framkvæmdir við tengibyggingu milli Suðurlandsvegar 1 og 3 á Hellu höfðu verið í gangi frá því árið 2009. Saga byggingarinnar og félagsins er lituð af fjárskorti allt frá byrjun. Strangt samningaferli fór í gang haustið 2010 en fljótt áttaði ég mig á því að hagsmunaaðilar báru lítið skynbragð á alvarlega stöðu félagsins. Mikilvægt var að upplýsa alla hagsmunaaðila um stöðuna og leggja á borð mögulegar leiðir að lausn.

Vorið 2011 tókst að bjarga félaginu frá gjaldþroti með samningum milli hluthafa annars vegar og á milli félagsins og verktaka hins vegar. Hluthafar breyttu kröfum sínum á hendur félaginu í hlutafé og lögðu auk þess aðliggjandi fasteignir á Suðurlandsvegi 1 og 3 inn sem hlutafé. Við þetta eignaðist Rangárþing ytra 69% hlut í félaginu en hafði áður átt 50%. Verktakar slógu af sínum kröfum á hendur félaginu. Þessi aðgerð breytti algerlega rekstrar- og fjármögnunarhæfi félagsins. Í framhaldinu náðist að fjármagna þann verkáfanga sem framkvæmdin stóð í og hefja á ný framkvæmdir.

Jákvæðar breytingar hjá stofnunum og í stjórnsýslunni
Breytingarnar hjá Rangárþingi ytra á kjörtímabilinu snúast ekki eingöngu um tölur því stjórnsýslan og rekstur margra stofnana hefur tekið stakkaskiptum. Mín sýn hefur verið sú að nútímavæða stjórnsýsluna því hún var stöðnuð og litlar framfarir höfðu verið í áraraðir og hafði ég stuðning sveitarstjórnar í því.

Í upphafi kjörtímabils var tekin upp sú nýbreytni að drög að fundargerðum sveitarstjórnar og hreppsráðs voru send út til kjörinna fulltrúa daginn fyrir fund. Með því móti höfðu allir sveitarstjórnarmenn kost á að undirbúa sig af kostgæfni fyrir fundi og fundir styttust verulega frá því sem áður þekktist. Þá voru fundargerðir sveitarstjórnar og hreppsráðs settar á heimasíðu sveitarfélagsins strax að hverjum fundi loknum.

Rekstur leikskólans Heklukots á Hellu hefur breyst svo á síðustu tveimur árum að eftir því er tekið. Í október 2010 var Sigríður Birna Birgisdóttir ráðin leikskólastjóri og á miklar þakkir skyldar fyrir þann árangur sem náðst hefur þar. Leikskólastjóri hefur haft fullan stuðning stjórnenda sveitarfélagsins og er leikskólanum stýrt af hagkvæmni og hugsjón með hag barna og starfsmanna að leiðarljósi. Nefna má að leikskólinn fékk afhentan Grænfánann sumarið 2012 sem ber vott um skapandi starf og hugsjón. Með því að nefna breytingarnar á Heklukoti er ég ekki að kasta rýrð á aðrar stofnanir sveitarfélagsins og þær framfarir sem þar hafa orðið. Allar stofnanir hafa farið í gegnum naflaskoðun að einhverju leyti og unnið að nauðsynlegum breytingum.

Innri breytingar eru ekki alltaf íbúum sýnilegar og líklega aldrei nóg gert af því að upplýsa um þær og þá vinnu sem í gangi er á hverjum tíma. Mjög miklar breytingar hafa orðið á skrifstofu sveitarfélagsins og er þá átt við allt í senn húsnæði, verkferla, stjórntæki og starfsfólk. Skipurit skrifstofunnar hefur verið einfaldað og skýr verkaskipting er á milli starfsfólks auk þess sem lagt er upp með að starfsfólkið vinni sem ein heild að sameiginlegum markmiðum. Tvær stjórnunarstöður hafa verið lagðar niður, þ.e. stöður fjármála- og skrifstofustjóra. Sveitarstjóri hefur tekið yfir ábyrgð þessara starfa að stærstu leyti en aðalbókari heldur utanum og ber ábyrgð á bókhaldi sveitarfélagsins.

Nýtt bókhalds- og upplýsingakerfi hefur verið í innleiðingu allt árið 2012. Kerfið býður uppá öflugar aðgangsstýringar, eykur allt öryggi í meðferð gagna og eflir upplýsingaflæði. Allir reikningar eru skannaðir inn í kerfið eða mótteknir á rafrænu formi. Meðferð pappírs hjá forstöðumönnum og þeim sem hafa með samþykkt reikninga að gera heyrir því sögunni til. Þetta hefur ekki gengið þrautarlaust en á móti hefur starfsfólk öðlast mikla reynslu. Unnið er að innleiðingu á rafrænu skjalastjórnunarkerfi, eitthvað sem að mínu viti hefði átt að vera búið að innleiða fyrir a.m.k. áratug síðan. Í stuttu máli þá auðveldar kerfið allt utanumhald um þau mál sem eru í gangi á hverjum tíma, eykur skilvirkni og svartíma til skjólstæðinga ásamt því að halda fullu öryggi á einstökum skjölum.

Stofnanir sveitarfélagsins á Hellu hafa verið tengdar saman með ljósleiðara og komið hefur verið upp miðlægum gagnagrunni. Fjárfest hefur verið í svokölluðu IP símkerfi sem sett verður í allar þessar stofnanir. Þessi breyting mun spara sveitarfélaginu umtalsverðar fjárhæðir á komandi árum auk þess að bæta verulega vinnuumhverfi starfsmanna. Ný heimasíða var sett á netið og lénið www.ry.is var tekið upp. Markmiðið var að auðvelda íbúum aðgang að stjórnsýslunni á rafrænan hátt.

Húsnæði skrifstofunnar á Suðurlandsvegi 1 hefur tekið miklum breytingum og nýting húsnæðisins er mun betri en áður var. Starfsmannafjöldinn í húsnæðinu, á sama fermetrasvæði, hefur u.þ.b. tvöfaldast á síðustu mánuðum og er ástæðan flutningur Félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu í húsnæðið með fjóra starfsmenn og breytt fyrirkomulag skipulags- og byggingarmála. 1. október 2012 hóf störf hjá Rangárþingi ytra nýr sviðsstjóri umhverfis-, eigna- og tæknisviðs og hefur hann aðsetur á skrifstofunni. Mörg ný verkefni hafa því fluttst inn á skrifstofu Rangárþings ytra, s.s. utanumhald fjármála og rekstur Suðurlandsvegar 1-3 ehf., ýmis þjónusta við Félagsþjónustuna og allt utanumhald skipulags- og byggingarmála.

Ýmis framfararverkefni og samstarf sveitarfélaga
Ekki hafa eingöngu orðið breytingar á innri stjórnsýslu sveitarfélagsins því miklar framfarir hafa orðið í ýmsum málaflokkum þrátt fyrir þröngan kost. Í umræðunni hefur verið að erfiðlega hafi gengið í samstarfi við nágrannasveitarfélögin og er bent á breytingar tengdar skipulags- og byggingarmálum í þeim efnum. Þessu er ég ekki sammála og tel að vel hafi tekist í samstarfsverkefnum. Breytingar á sviði skipulags- og byggingarmála hafa minnst með erfiðleika í samstarfi að gera heldur var það samhljóma talið, hjá sveitarstjórn Rangárþings ytra, að styrkja þyrfti innviði stjórnsýslu sveitarfélagsins. Þess vegna urðu þessar breytingar að veruleika. Nýr starfsmaður hefur ekki eingöngu með skipulags- og byggingarmál að gera heldur er honum m.a. ætlað að halda utanum og gera verðmæti úr eignum sveitarfélagsins og vinna að innri skipulagsmálum fyrir sveitarfélagið. Það er mín sannfæring að þetta sé, í núverandi stöðu, skref til góðs fyrir Rangárþing ytra. Til áréttingar þá er það skoðun mín að þörf sé á sameiningum sveitarfélaga því stjórnsýslueiningar með fá hundruð íbúa eru ekki hagkvæmar, standa ekki undir lögbundnum verkefnum og auka líkur á persónulegum hagsmunaárekstrum í stjórnsýslunni. Ef þörf er á samstarfi sveitarfélaga um smærri verkefni lít ég svo á að fremur sé þörf á sameiningu sveitarfélaga.

Stórt skref var stigið inn í framtíðina þegar nýtt fyrirkomulag sorphirðu var tekið upp 1. desember 2011. Þessi breyting hefur ekki verið hnökralaus en grunnþættirnir eru jákvæðir og breytingarnar miklar. Ef ekki hefði komið til farsælt samstarf sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu í þessum málaflokki hefðu þessar breytingar ekki verið unnar jafn faglega og raun ber vitni.

Bakaríið Kökuval hóf fyrst fyrirtækja starfsemi í Miðjunni í september 2011. Glæsileg Vínbúð opnaði þar í sumarbyrjun 2012 og er húsið óðum að fyllast af starfsemi sem hver styður aðra.

Íþróttafélög hafa verið styrkt með samningum og hvatningu um áframhaldandi gott starf. Starfsemi félagsmiðstöðvar var færð í húsnæði Grunnskólans á Hellu og hefur ábyrgð á þeim rekstri verið í höndum skólastjórnenda. Framtíðarsýnin var sú að félagsmiðstöðin fengi sitt eigið húsnæði innan veggja skólans eða í nágrenni skólans.

Það verkefni sem mér þykir hvað vænst um er opnun „menningarheimilis“ á Hellu. Það hefur hvergi komið fram opinberlega, svo ég viti til, að hugmyndin er frá mér komin og stærstan heiður á útfærslu hennar á tengdafaðir minn, Haraldur Konráðsson sem m.a. er formaður Karlakórs Rangæinga. Þetta verkefni er lifandi dæmi um það hvernig alvöru samvinna virkar og skilar verðmætum til samfélagsins. Í menningarheimilinu eiga allir aldurshópar að eiga sér athvarf og má segja að það virki sem félagsmiðstöð eldri borgara í sýslunni. Kórar, kven-, leik-, íþróttafélög o.fl. stunda þar sína starfsemi eða hafa á því kost. Það sem ég hefði viljað sjá fara þarna fram, til viðbótar því sem að framan er talið, er félagsstarf ungmenna í sýslunni. Þegar öllu er á botninn hvolft eru þarfir ungmenna og eldra fólks til félagsstarfs svipaðar. Reynslan af starfsemi menningarheimilisins er góð og rekstur þess á vonandi eftir að vaxa og dafna. Aðstandendur heimilisins, stjórn Oddasóknar, sóknarprestur og forsvarsmenn þátttökufélaga eiga þakkir skyldar fyrir það að þetta verkefni hafi tekist með svo glæsilegum hætti sem raun ber vitni.

Framtíðarsýnin og fjárfestingar
Við upphaf yfirstandandi kjörtímabils þótti sýnt að ekki væri að vænta verulegra nýfjárfestinga á næstu árum. Stóra verkefnið var og er að takast á við fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Árar hafa ekki verið lagðar í bát heldur hefur verið unnið eftir skýrri framtíðarsýn og áhersla lögð á grunnstoðir. Markvisst hefur verið unnið að því að bæta aðstöðuna í Grunnskólanum á Hellu. Þrjár kennslustofur hafa á undanförnum árum verið endurbættar sem nýjar og áætlað var að halda áfram endurbótum á eldra húsnæði skólans. Nýtt hreinsivirki fráveitu var tekið í notkun í sumarbyrjun 2012 sem kemur í veg fyrir að úrgangur berist í Ytri-Rangá.

Stærsta einstaka fjárfestingin hefur svo verið í Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps. Árið 2011 var virkjað nýtt vatnstökusvæði við Lækjarbotna og í framhaldi af því hefur markvisst verið unnið að því að stækka og styrkja veitukerfið. Þessi fjárfesting sannaði sig svo um munaði sl. sumar þegar vatnslind veitunnar í Götu þornaði. Þessi alvarlega staða var mikil ógn við fjölda býla á svæðinu og aðra atvinnustarfsemi, s.s. kjúklingaeldið á Ásmundarstöðum í Ásahreppi. Það er mál manna að gríðarlegu tjóni hafi verið afstýrt og líta má svo á að samfélagslega hafi þessi fjárfesting þegar borgað sig. Það sama má einnig segja um hreinsivirki fráveitunnar því spjót fjölmiðla hafa staðið á fráveitumálum á Hellu í langan tíma og mjög líklegt að stórtjóni hafi verið afstýrt sumarið 2012.

Til framtíðar hefur verið horft með hag almennings að leiðarljósi. Það eru mörg brýn verkefni sem bíða úrlausnar en forgangsraða verður, svona rétt eins og á venjulegum heimilum.

Þróun fjárhags og Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga
Ný sveitarstjórnarlög tóku gildi í upphafi árs 2012 og þar eru settar fram viðmiðanir um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Í lögunum segir að sveitarstjórn beri að sjá til þess að heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélags séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum þess. Því miður háttar svo til hjá Rangárþingi ytra að skuldahlutfall þess er umfram þessi lögbundnu mörk. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur haft fjárhag sveitarfélagsins undir eftirliti, raunar áður en nýju sveitarstjórnarlögin tóku gildi og það ekki að ástæðulausu.

Allar helstu kennitölur fjárhags og rekstrar hjá Rangárþingi ytra versnuðu allt frá árinu 2002 fram til ársins 2010. Sérstaklega hallaði þó undan fæti frá árinu 2005 en á þeim tíma fór t.a.m. veltufjárhlutfall úr 1,85 niður í 0,28. Veltufjárhlutfall segir til um getu sveitarfélagsins til að standa undir skuldbindingum næstu mánaða og því lægra sem hlutfallið er því veikari er fjárhagsstaðan. Almennt er talið að fjárhagsstaðan sé alvarleg sé hlutfallið undir 1. Skuldir sem hlutfall af tekjum stigu úr 86% árið 2005 í 187% árið 2010. Vert er að taka fram að skuldbindingar vegna Suðurlandsvegar 1-3 ehf. voru ekki teknar inn í reikningsskil sveitarfélagsins árið 2010 og því má líta svo á að skuldahlutfallið hafi í raun verið hærra en ársreikningurinn segir til um.

Miklar sveiflur hafa einkennt rekstrarafkomu Rangárþings ytra. Markmið sveitarstjórnar eftir sveitarstjórnarkosningar 2010 var að koma rekstri sveitarfélagsins í jafnvægi, þ.e. ná viðunandi framlegð af rekstrinum ár hvert, bæta helstu kennitölur og lækka skuldir sveitarfélagsins sem hlutfall af reglubundnum tekjum þess. Markmiðunum hefur verið náð sl. tvö ár en veltufjárhlutfallið fór úr 0,42 árið 2010 í 0,56 árið 2011 og hefur vaxið verulega á árinu 2012. Skuldir sem hlutfall af tekjum fóru úr 187% árið 2010 í 177% árið 2011 og hefur hlutfallið áfram legið niður á við, a.m.k. fram að nóvember sl. Rekstrarniðurstaða var jákvæð árin 2010 og 2011 og ekki var við öðru búist en að svo yrði einnig árið 2012.

Ég verð að árétta það sem áður hefur verið skrifað að langan tíma tekur að laga alvarlegt fjárhagsástand en hægt er að færa hluti til verri vegar á einu augnabliki. Því get ég alls ekki spáð á þessari stundu hvert fjárhagur Rangárþings ytra stefnir árið 2012 eða til næstu ára. Þær breytingar sem nú eiga sér stað með meirihluta- og sveitarstjóraskiptum á miðju kjörtímabili eru ekki til þess fallnar að bæta fjárhag sveitarfélagsins.

Unnið af heilindum fyrir alla
Upptalning verkefna sem unnin hafa verið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum er langt frá því tæmandi í þessari yfirferð og sýnir það hversu mikil vinna er að baki. Á viðlíka breytingaskeiði og Rangárþing ytra er búið að ganga í gegnum á síðustu tveimur árum ber mörgum að þakka. Bakland mitt var gott og sveitarstjórnin var að mestu leyti einhuga um þau framfararmál sem unnið var að. Starfsfólk hefur borið fullt skynbragð á aðstæður og lagt á sig ómælda vinnu til að ná þeim árangri sem náðst hefur. Að öðrum ólöstuðum eiga kjörnir fulltrúar Á-listans stærstan heiður af því umhverfi sem búið er að skapa og verður sveitarfélaginu vonandi til farsældar í framtíðinni. Guðfinna Þorvaldsdóttir, Magnús H. Jóhannsson og Steindór Tómasson eru í stórum hópi réttsýns og heiðarlegs fólks sem ég hef kynnst á minni lífsleið. Þeirra vinnubrögð einkennast af lausnum, framtíðarsýn og jafnræði, þau vinna á faglegan hátt af heilindum fyrir alla.

Gunnsteinn R. Ómarsson, fráfarandi sveitarstjóri Rangárþings ytra, MSc FIB