Ágætu íbúar og gestir, til hamingju með þjóðhátíðardaginn okkar.
Í dag höldum við hátíðlegan 17. júní, þjóðhátíðardag okkar Íslendinga. Dag sem minnir okkur á frelsið, sjálfstæðið og þrautseigjuna sem leiddi landið okkar til sjálfstæðis fyrir rúmum 80 árum. En þjóðhátíðardagurinn er ekki bara til þess að fagna því sem gerðist á sínum tíma. Hann er líka tækifæri til þess að staldra við og hugleiða hvert við viljum stefna sem samfélag.
Á þessum degi 17. júní rifjast einnig upp atburður sem markaði djúp spor sögu þessa sveitarfélags. Í dag eru 25 ár liðin frá Suðurlandsskjálftunum árið 2000. Margir muna hvað þeir voru að gera þegar ósköpin dundu yfir og í þessu húsi, íþróttahúsinu á Hellu, voru margir íbúar gamla Rangárvallarhrepps staddir til þess að fagna þjóðhátíðardeginum eins og við hér í dag. Þessi bygging var skjól og minnir okkur á mikilvægi öflugra innviða, samstöðu og samfélagslegrar nærveru þegar á reynir.
Þegar við hugsum til fortíðar og minnumst liðinna atburða þá verðum við líka horfa fram á veginn. Eitt af þeim málum sem kallar á alvöru og ábyrg viðbrögð í dag er einelti og ofbeldi í grunnskólum. Slíkt ástand má aldrei viðgangast í okkar sveitarfélagi. Öll börn eiga rétt á að mæta í skólann sinn án ótta, og vera í öruggu og uppbyggilegu umhverfi. Við í þessu sveitarfélagi trúum því að sterkasta vopnið felist í því að byggja upp samfélag þar sem börn og ungmenni finna til samkenndar og ábyrgðar, ekki aðeins innan veggja skólanna, heldur líka á íþróttavellinum í leik og starfi.
Afleiðingar eineltis eru oft fyrsta áfall í langri áfallasögu einstaklings. Með einelti brotnar sjálfsmyndin og sjálftraustið hverfur smá saman. En íþróttastarf er ekki aðeins leikur það er líka uppeldi. Það er þjálfun í félagsfærni, samvinnu og virðingu hvert fyrir öðru. Þegar börn læra að standa saman sem lið að vinna og tapa saman þá byggist upp menning sem dregur úr einelti og styrkir sjálfsmyndina. Þess vegna höfum við sem stjórnum þessu sveitarfélagi lagt mikla áherslu á að byggja upp íþróttamannvirki og styðja vel við íþróttastarf fyrir börn og ungmenni. Það stóra verkefni er rétt að byrja.
Ég hugsa stundum til þess þegar ég var að alast upp fyrir sirka 50 árum síðan, þá var viðtekin venja í frímínútum eða þegar strákar voru að leika sér í fótbolta að skipta í lið með ákveðnum hætti. Þeir tveir, sem voru bestir, völdu hvor sitt lið þá stóð hópurinn í röð og þessir tveir skiptust á velja í sitt lið. Undantekningalaust voru alltaf þeir sömu valdir síðastir og stundum fékk annar fyrirliðinn í lokin “tvo fyrir einn”. Ég minnist þess ekki að kennarar eða þjálfarar hafi gert neinar athugasemdir við þetta fyrirkomulag á sínum tíma. Þegar tíminn líður verður manni ljóst þegar hugsað er til baka að þetta var auðvitað grímulaust einelti. Ég vona svo sannarlega að þessi aðferð sé aflögð í dag þegar skipta á í lið. Á þessum mikla hátíðisdegi okkar Íslendinga er rétt að við skuldbindum okkur að gera okkar samfélag að öruggum og réttlátum stað fyrir öll börn. Í því liggur okkar styrkleiki, í samstöðunni.
Á 17. júní blossar þjóðerniskenndin upp í okkur, fólk fyllist stolti yfir þjóðerni sínu og uppruna. Víða er þó pottur brotinn í viðhorfum okkar til fólks sem ákveður að koma hingað til lands til þess að búa og starfa. Við verðum, og eigum, að taka vel á móti fólki sem hingað vill koma og gefa þeim tækifæri. Við fæddumst hérna, og lærðum tungumálið án þess að hafa mikið fyrir því.
Nú hefur verið stofnað fjölmenningarráð í sveitarfélaginu. En til hvers er svo fjölmenningarráð? Hlutverk ráðsins er að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um málefni og hagsmuni sem snúa að innflytendum og fólki með erlendan bakgrunn. Við eigum að gera betur í því að halda því á lofti að fjölbreytileikinn er undirstaða jákvæðrar þróunar. Gleymum því ekki að engin nær að aðlagast nýrri menningu og þjóðfélagi án hindrana. En málin verða enn flóknari en þau þurfa að vera ef við sem hér erum fyrir sýnum ekki skilning og umburðarlyndi.
Þrátt fyrir að dagurinn í dag bjóði upp á skemmtileg hátíðarhöld ættum við ekki að gleyma því að þrátt fyrir allt, höfum við sem einstaklingar ekkert til þess unnið að njóta þeirrar miklu gæfu að búa í samfélagi þar sem friður og velsæld ríkir. Munum eftir okkur sjálfum, munum eftir þeim sem skipta okkur máli og okkur þykir vænt um. Munum eftir þeim sem þurfa á hjálp að halda, nágrannanum, samfélaginu okkar og umhverfinu. Þannig gerum við hvern dag betri og eflum samfélagið sem við eigum að vera stolt af og deila því með öðrum sem vilja vera hluti af heildinni. Það er pláss fyrir alla hjá okkur. Hjálpum og styðjum aðra til þess að verða hluti af okkar frábæra samfélagi.
Nú eins og áður skiptir samvinna og samstaða öllu máli. Það er hlutverk okkar allra að taka þátt í að byggja upp og viðhalda góðu samfélagi þar sem gott er að búa og öllum líður vel.
Takk fyrir, njótum dagsins og gleðilegan þjóðhátíðardag.
Eggert Valur Guðmundsson
Oddviti Á-listans og sveitarstjórnar Rangárþings ytra
*þessi hátíðarræða var flutt í íþróttahúsinu á Hellu þann 17. júní 2025