Á-listinn hefur lengi fjallað um málefni varðandi sanngjarna skiptingu arðs af orkuauðlindum eða frá stofnun listans árið 2010. Listinn hefur kynnt áherslumál sín í þessum efnum ítrekað, bæði í kosningabaráttu, á fundum með hagsmunaaðilum og við önnur tækifæri. Forsvarsmenn listans hafa talið að þessi mál séu sanngirnismál og að þau tengist byggðastefnu á landsvísu. Nú líður senn að þeim tímapunkti að taka þarf ákvörðun um framkvæmdaleyfi tveggja stærstu virkjanakosta sem hafa verið samþykktir í nýtingarflokk Rammaáætlunar, Hvammsvirkjun og Búrfellslundur, þeir kostir eru báðir innan marka sveitarfélagsins Rangárþings ytra.
Sem dæmi um áherslumál Á-listans má nefna að í stefnumálabæklingi árið 2010 var fjallað m.a. um “auðlindanýtingu einkum til hagsbóta fyrir heimahéraðið“. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2014 var í stefnumálabæklingi lögð áhersla á “mikilvægi þess að vera með skýra stefnu í skipulagsmálum og auðlindamálum” ásamt því að við ætluðum að “beita okkur fyrir sanngjarnri skiptingu arðs af orkuauðlindum í gegnum Samtök orkusveitarfélaga” og “laða að grænan orkufrekan iðnað og nýta m.a. ákvæði 12. gr. raforkulaga vegna nálægðar við virkjanir“. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2018 ítrekuðum við í stefnumálabæklingi, sem borinn var í öll hús í sveitarfélaginu, að við myndum vilja “beita okkur fyrir sanngjarnari skiptingu arðs af orkuauðlindum sveitarfélagsins“.
Fyrir síðustu kosningar árið 2022 kynntum við svo áform okkar um að “þrýsta á að Landsvirkjun setji upp varanlegar starfsstöðvar í sveitarfélaginu samhliða framkvæmdum við Hvammsvirkjun” ásamt því að “vinna umhverfis- og auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið þar sem auðlindir sveitarfélagsins [yrðu] skilgreindar og verðmæti þeirra metið” og að “meðhöndla auðlindir með því hugarfari að vernda og auka verðmæti þeirra og bæta lífsgæði íbúa og komandi kynslóða“.
Ofan á allt þetta sem á undan er talið höfðum við frumkvæði að því að sveitarfélagið Rangárþing ytra, fyrst sveitarfélaga í desember 2022, myndi bóka sérstaklega um að huga þyrfti “að fjölmörgum atriðum með hagsmuni sveitarfélagsins og samfélagsins alls í huga. Gera [þyrfti] samfélagssáttmála varðandi framkvæmdina (Hvammsvirkjun) og frekari nýtingu orku í héraði. Ljóst [væri] að nú þegar er rúmlega helmingur af orku Landsvirkjunar framleidd á svæðinu en lítill hluti nýttur til atvinnustarfssemi á Suðurlandi.“
Við fögnum því að þessi mikilvægu málefni séu nú loks að fá þá áheyrn og umræðu sem við höfum verið að þrýsta á í nærri 13 ár, en því miður oft fyrir daufum eyrum. Að þessu sögðu tökum við undir bókun Samtaka orkusveitarfélaga frá 17. febrúar 2023 m.a. um að “arður af nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu þurfi að skiptast með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagaðilar að orkuvinnslunni” og að “tryggja þurfi með lögum að nærumhverfið þar sem orkan á uppsprettu sína, njóti efnahagslegs ávinnings sem mun styrkja byggð þar sem orkan verður til um allt land“.
Að endingu viljum við þó leggja áherslu á að við teljum að gæta þurfi meðalhófs í yfirlýsingum og aðgerðum sveitarfélaga í þessum mikilvæga málaflokki sem varðar þjóðarhag.