Samantekt oddvita um verkefni á milli funda

Á fundi sveitarstjórnar í dag var tekin upp sú nýlunda að oddviti gerði grein fyrir verkefnum og málum sem upp hafa komið á milli funda og þeim skilað með skriflegum hætti á minnisblaðaformi. Er þetta gert til að auka upplýsingaflæði um þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni.

Vonandi mælist þetta vel fyrir hjá öllum þeim sem vilja fylgjast með málefnum sveitarfélagsins en hugmyndin er að í framtíðinni verði sveitarstjóri eða oddviti með svona minnispunkta í upphafi hvers sveitarstjórnarfundar, og  að þessir óformlegu minnispunktar verði aðgengilegir með fundargerð sveitarstjórnar.

Minnisblað 

Frá síðasta fundi sveitarstjórnar hefur verið unnið að ýmsum málum sem ekki eru formlega dagskrá þessa fundar. Ég ætla að fara yfir nokkur mál en listinn er langt frá því að vera tæmandi:

  1. Unnið hefur verið að málum er varðar hugmyndir um fiskirækt í Eystri-Rangá. Búið er að stofna tvær landspildur er koma til með að bera upprunaleg landnúmer Árbæjar og Foss. Í framhaldi af þeirri vinnu eru kominn drög að leigusamningi sem unnin hafa verið í ágætu samstarfi allra sveitarstjórnarfulltrúa. Ég vona að hægt verði að ljúka þessu máli á næstu dögum. 
  1. Eftir því sem ég veit best hafa allar stjórnir og nefndir sem við rekum með nágrannasveitarfélögunum komið saman og hafið störf. Þó á Héraðsnefnd Rangæinga og stjórn Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps eftir að hittast. Þessa dagana er stjórn Hjúkrunarheimilisins Lundar að auglýsa eftir hjúkrunarforstjóra. 
  1. Haldnir hafa verið nokkrir vinnufundir vegna breytinga á samþykktum sveitarfélagsins, vonandi verður hægt að taka þær breytingar til fyrri umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar. 
  1. Vinnuhópur um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja hefur verið skipaður og kemur væntanlega saman til fyrsta fundar á næstu dögum, nýskipuð bygginganefnd Grunnskólans á Hellu kemur saman til fyrsta fundar n.k mánudag. 
  1. Þessa daganna er verið að reisa útveggina steyptu einingarnar vegna stækkunar Grunnskólans á Hellu en verkið tafðist örlítið vegna bilunar í krana sem notaður er til verksins, annars gengur framkvæmdin að mestu samkvæmt áætlun. 
  1. Landsmóti hestamanna er lokið og tókst vel og var mótshöldurum til mikils sóma. Töðugjöld eru fram undan um næstu helgi og undirbúningur fyrir hátíðina hefur gengið vel. Nýr hjólabrettagarður verður vígður í dag í tengslum við hátíðina. 
  1. Á næstu dögum verður sest niður með landeigendum Helluvaðs 1 og látið á það reyna hvort náist samkomulag um kaup sveitarfélagsins á 50 hekturum af landi  sem mun nýtast til framtíðaruppbyggingar sveitarfélagsins. 
  1. Ég hef verið í sambandi við forsvarsmenn byggingar alþjóðaflugvallar í Árborg munu þeir koma á næsta reglulega fund Byggðarráðs og kynna sínar hugmyndir. Í framhaldi af þeim fundi verður skoðað hvort einhver áhugi og grundvöllur er fyrir slíkri uppbyggingu í Rangárþingi ytra í samráði við ráðuneytið, og hugsanlega gerð viðhorfskönnun meðal íbúa og sumarhúsaeigenda. 
  1. Eins og flestum er kunnugt um voru unnin eignaspjöll hér um síðustu helgi, skornir niður fánar og einnig var skorið á ærslabelginn við Nes. Rannsókn lögreglu er í gangi og vonandi kemst niðurstaða í þá vinnu fljótlega. 

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar.