Kæru íbúar og gestir, gleðilega hátíð!
Gríðarlegar framfarir hafa orðið á Íslandi frá stofnun lýðveldisins og miklar breytingar orðið á lífskjörum fólks. Vinnan í átt að þeim framförum hefur ekki alltaf verið auðveld og vegurinn sjaldan beinn og breiður í landi þar sem náttúruöflin fara oft um okkur óblíðum höndum. Í gegnum tíðina höfum við þurft að berjast við jarðskjálfta, eldgos og ofsaveður sem oft á tíðum hefur haft mikil áhrif á líf fólks í landinu.
Þátttaka í samfélaginu er öllum mikilvæg. Það skiptir máli að við virðum skoðanir hvers annars og séum tilbúin að taka tillit til ólíkra aðstæðna fólks. Mín skoðun er sú að búa í minni sveitarfélögum eins Rangárþingi ytra kalli fram það besta í mannfólkinu. Við eigum að vera stolt af sögu og menningu þessarar sveitar og halda því á lofti hvar sem við komum. Vegna fámennisins verður hver og einn einstaklingur stærri og finnur að hann verður að taka þátt í einhverju og verða um leið virkur þátttakandi í samfélaginu. Stundum er talað í neikvæðum tón um minni samfélög, að allir viti allt um alla. En er það ekki ein birtingarmyndin af náungakærleik að fylgjast með og geta gripið inní þegar eitthvað bjátar á hjá einhverjum?
Við eigum tækifæri í orku svæðisins og erum þegar byrjuð að nýta hana. Við eigum líka tækifæri í náttúrunni sem dregur að sér fjölda fólks á hverju ári. Innviðir okkar eru sterkir en við verðum að muna ekkert er sjálfgefið, við þurfum að vera meðvituð um þjónustufyrirtækin okkar og beina viðskiptum okkar að þeim því það er ekki sjálfsagt að þau verði hér á morgun.
Að undanförnu höfum við heyrt í fréttum allskonar sögur um mismunum einelti og rasisma á Íslandi. En hvernig er staðan á þessum málum í okkar nærsamfélagi? Erum við að flokka fólk eftir þeirra uppruna? Getum við bætt okkur í því að taka á móti fólki? Á undanförnum árum hefur fólki af erlendum uppruna fjölgað hér í leit að betra lífi og öryggi. Verum öll samtaka í því að bjóða fólk sem kemur til okkar og eignast fjölskyldu og börn og vill búa hér velkomið.
Það eru bjartir tímar framundan í okkar samfélagi, og fullt af tækifærum sem við þurfum að grípa. Samfélagið er að lifna við á ný, atvinnulíf og mannlíf að komast í eðlilegt horf eftir hundleiðinlegt Covid tímabil. Við getum farið að hittast á ný og gleðjast saman á alls kyns mannamótum sem er auðvitað ákaflega gleðilegt. En þá held ég að sé mikilvægt að staldra við og skoða þennan tíma sem við höfum upplifað í heimsfaraldrinum. Hvað höfum við lært af þessum skrýtnu tímum sem við getum tekið með okkur áfram? Margir hafa áttað sig á hvað það var í raun og veru gott að einfalda lífið, eins og við höfum þurft að gera. Allt í einu voru ekki gerðar kröfur um að við værum útum allar koppagrundir að sinna öllu mögulegu og ómögulegu. Áreiti minnkaði og lífið einkenndist af meiri ró og hæglæti, sem fólk hefur fundið fyrir að hafi gert þeim gott og haft jákvæð áhrif. Það er talað um að á þeim tímum sem við lifum sé streita að verða stærsta ógnin við heilsu okkar.
Það væri því til mikilla bóta ef að reynsla okkar af tímanum í samkomutakmörkunum yrði til þess að við forgangsröðuðum hlutum í lífi okkar upp á nýtt. Hvað er það sem raunverulega skiptir máli í lífinu? Hvað er það sem veitir mér hamingju? Hvað er það sem gefur mér gleði og orku? Er eitthvað sem ég hef verið að gera undanfarin ár sem ég ætti bara hreinlega að hætta að gera? Eitthvað sem rænir mig orku frekar en að leggja inn í gleðibankann? Söfnum minningum frekar en hlutum. Höfum hugfast að flestir hlutir sem við kaupum verða á einhverjum tímapunkti að rusli sem við þurfum að losa okkur við. Eyðum tíma og ræktum tengslin við fjölskyldu og vini. Hugum að líðan okkar og fólksins í kringum okkur.
Það hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að það að gera góðverk, gleðja aðra eða vinna sjálfboðastarf hefur afar jákvæð áhrif á andlega líðan og heilsu einstaklinga. Það að gefa af sér til annarra má eiginlega segja að sé að skiptast á kærleik. Þetta þurfa ekki að vera stórkostleg afrek heldur geta litlir hlutir eins og að bera þunga poka fyrir einhvern eða að kaupa kaffibolla handa þeim næsta í röðinni á kaffihúsinu án þess að segja honum frá því, breytt miklu. Mig langar þess vegna að nota þetta tækifæri til þess að hvetja alla til þess að bjóða sig fram í sjálfboðastarf því það er fátt mikilvægara hverju samfélagi en félagsauðurinn. Gefðu þig fram í foreldraráð í skólanum, íþróttunum, hjálparsamtökum eða hverju sem er. Bjóddu fram aðstoð þína til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Gerðu lítið góðverk án þess endilega að segja frá því. Það græða allir á því.
Að lokum þetta, njótum sumarsins og alls þess sem þetta frábæra land okkar Ísland hefur uppá að bjóða.
Eggert Valur Guðmundsson,
oddviti Á-listans og sveitarstjórnar Rangárþings ytra.