Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra þann 25. maí 2022 var lagður fram til staðfestingar hönnunarsamningur við VSÓ Ráðgjöf ehf um verkfræðihönnun við 2. áfanga nýrrar skólabyggingar Grunnskólans á Hellu. Samningurinn hljóðar upp á 70.037.742 kr. m. vsk og rúmast innan fjárhagsáætlunar. Áfangi 2 er nýbygging á tveimur hæðum, um 2465 m2. Breyting á eldri byggingum eru um 550 m2. Tengibygging við íþróttamiðstöð er um 42 m2. Skólalóðin er um 3400 m2.
Eftirfarandi var kynnt á fundi sveitarstjórnar í maí 2021:
Áfangi 2 samanstendur af nýbyggingu með aðalinngangi, Krossgötu, sal, bókasafni, tónlistarskóla, tré- og málmsmíði, heimilisfræði og eldhúsi skólans á 1. hæð. Á 2. hæð er móttaka, skólastjórnendur, vinnusvæði kennara, kaffistofa og starfsmannarými. Gert er ráð fyrir að hægt sé að skipta vinnusvæðinu og kaffistofunni upp í smærri einingar. Við kaffistofu kennara eru stórar þaksvalir til suðurs. Þegar nýbygging er tilbúin og búið er að flytja stjórnendur og kennaraaðstöðu þangað er unglingastigið stækkað yfir í gömlu aðstöðuna þeirra auk þess sem í kjallaranum verður innréttað heimasvæði unglingastigs. Þar er gert ráð fyri að grafa frá kjallaranum setja nýja glugga og hurðir með aðgangi út á verönd með úti settröppum, skábraut og hreystigarði. Öðrum kennslustofum og gamla bókasafninu verður breytt í
sérgreinastofur. Tengigangur á milli skóla og íþróttamiðstöðvar verður byggður. Skólalóðin er fullkláruð í þessum áfanga og gert er ráð fyrir því að flytja íþróttavöllinn í þessum áfanga. Í áfanga 2 verður sérgreinaás með þremur nýjum sérgreinastofum og að viðbættum stofum í eldri byggingu verða sérgreinastofur samtals 11, ásamt opnum og lokuðum námsverum. Unglingastigið verður með samtals 4 kennslustofur og heimasvæði. Tónlistarskólinn við hlið bókasafnsins verður með 5 kennslustofur.