Þessa dagana stöndum við á tímamótum. Við horfum fram á uppbyggingartímabil eftir afar langan erfiðleikakafla hjá okkur flestum á tímum heimsfaraldurs. Nú skiptir máli að halda rétt á spöðunum og grípa tækifærin þegar þau gefast. Húsnæðisskortur og hátt fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið til þess að margir kjósa að flytja út á land og þó að fátt jákvætt megi segja um faraldurinn, hefur hann þó, þegar öllu er á botninn hvolft orðið lyftistöng fyrir landsbyggðina í því tilliti að kynna fyrir fólki og fyrirtækjum möguleikann á fjarvinnu. Nú virðist krafa um búsetu nálægt vinnustað ekki eins ríkjandi og áður var, í það minnsta ekki fyrir hefðbundin skrifstofustörf. Rangárþing ytra hefur ekki farið varhluta af þessari þróun og mikil uppbygging hefur þegar orðið, fasteignir seljast hratt og íbúum fjölgar. Við erum sérlega vel sett í þessu tilliti, erum í seilingarfjarlægð við ys og þys höfuðborgarsvæðisins, eigum nægt byggingarland, nettenging í sveitarfélaginu er með afbrigðum góð og býður upp á marga möguleika í sambandi við störf án staðsetningar. Uppbygging skóla og leikskóla er í farvatninu og gengur ágætlega og fleira mætti upp telja sem kosti þess að velja Rangárþing ytra sem sitt framtíðarheimasvæði.
En þó er eitt veigamikið atriði sem þarf að gefa gaum, nefnilega sú staðreynd að á sama tíma og íbúum fjölgar hratt erum við að tapa þjónustu af svæðinu. Pósthúsinu verður lokað nú í vor og nú er svo komið að engin gjaldkeraþjónusta er í boði hér í bankanum. Ekki er víst að allir hafi áttað sig á því hvað það merkir, en nú geta börnin ekki látið telja úr baukunum sínum, ekki er hægt að skipta gjaldeyri og fyrirtæki geta ekki sótt skiptimynt eða lagt inn uppgjör í reiðufé nema með tilfæringum. Matvöruverslunin sem okkur stendur til boða er síðan einn kapítuli út af fyrir sig og ekki á allra færi að nýta sér hana vegna verðlags, þó í sjálfu sér sé ekkert út á vöruúrval og þjónustu þar að setja. Vanti hins vegar nagla, skrúfu, pensil, stígvél á börnin eða aðra sjálfsagða dagvöru sem ekki telst munaðarvara er maður í vondum málum og fyrirséð að maður þarf að taka sér bíltúr í annað sveitarfélag til að redda málunum.
Öll töpuð þjónusta úr sveitarfélaginu er tapaður peningur úr sveitarfélaginu. Það er mjög nauðsynlegur þáttur í allri uppbyggingu til framtíðar að verslun og þjónusta vaxi og dafni samhliða fjölgun íbúa. Framtíðin er björt en hún spannar lengri tíma en fjögur ár, vinnum saman að langtíma áætlun og gerum Rangárþing ytra að blómlegum stað sem við getum verið stolt af um ókomna tíð.
Höfundur:
Berglind Kristinsdóttir
7.sæti Á-listans í Rangárþingi ytra