Við undirritaðir búum á Hellu og sitjum í sveitarstjórn Rangárþings ytra fyrir Á-listann. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2010 hlaut Á-listinn yfirburða kosningu og fékk 494 atkvæði. D-listanum var hafnað og fékk hann 360 atkvæði. Þau sorglegu tíðindi gerðust nú nýverið að ein úr okkar fjögurra manna hópi í meirihluta ákveður að skipta um lið og mynda nýjan meirihluta með D-lista af ástæðum sem okkur eru enn fullkomlega óskiljanlegar. Miðað við úrslit kosninganna er þetta víðsfjarri vilja kjósenda.
Það má vera að einhverjum þyki þetta væl og við eigum bara að kyngja óbragðinu, því „svona sé nú lýðræðið“. Eða að við verðum að taka þessu af því „svona er pólitík“ og stutt til jóla.
Í okkar huga er þetta ekki lýðræði og svona finnst okkur að pólitík eigi ekki að vera. Lýðræðið skipaði Á-listanum að vera við stjórnvölinn þetta kjörtímabil. Lýðræðið hafnaði D-listanum eftir áratuga setu, eitthvað sem var talið óhugsandi, en sýndi að íbúar höfðu fengið nóg. Þótt ótrúlegt megi virðast, eru þessi meirihlutaskipti innan ramma laganna, en siðleysið er algjört. Liðhlaupar geta valdið svona usla ef þeim sýnist svo að því er virðist í fullkomnu tilgangsleysi.
Hvað fær svo sveitarfélagið okkar, íbúarnir, við skiptin? Nýjan meirihluta sem skv. yfirlýsingu, hefur sömu stefnumál og Á-listinn, en „nýjan“ oddvita og „nýjan“ sveitarstjóra. Allt er þetta sama fólkið fyrir utan sveitarstjórann auðvitað. Einn faglega ráðinn fer út, og annar pólitískt valinn inn í staðinn og auðvitað án nokkurs samráðs við Á-lista né auglýsingar eins og vera ber um æðstu stjórnendur sveitarfélagsins. Verður sveitarfélaginu betur stjórnað? Betri fjármálastjórnun? Reksturinn í fastari skorðum? Stefnan skýrari? Óskandi væri að við gætum svarað einhverjum þessara spurninga játandi.
Sveitarfélagið okkar er skuldum vafið. Öllum ber saman um að nýjasta framkvæmd sem sveitarfélagið hefur staðið að, bygging verslunar- og þjónustuhúsnæðis á Hellu – „Miðjan“, er þungur baggi á sveitarsjóði. Ágætis hugmynd sem fór illa úr böndunum. Ástandið var fjárhagslega alslæmt þegar Á-listinn tók við völdum. Það blasti því við nýjum sveitarstjóra að vinna að heildar endurskipulagningu og endurskoðun á öllum fjármálum sveitarfélagsins með sínu starfsfólki.
Við auglýstum eftir sveitarstjóra í kjölfar kosninga 2010. Af u.þ.b. 40 umsækjendum, varð fyrir valinu Gunnsteinn R. Ómarsson, Cand. oecon. og Ms.C. í fjármálum og alþjóðaviðskiptum. Sveitarstjórn var einróma um að ráða Gunnstein og í ljós kom að hann var happafengur. Til að hlaupa hratt yfir sögu, þá tókst honum með hjálp góðra starfsmanna á skrifstofu sveitarfélagsins að endurskipuleggja fjárhag sveitarfélagsins á það trúverðugan hátt að lánastofnanir sannfærðust um að rekstur sveitarfélagsins með nýju sniði og meira aðhaldi stæði undir sér og óhætt væri að lána sveitarfélaginu til frekari uppbyggingar og niðurgreiðslu óhagstæðra lána. Sveitarsjóður hafði m.a. verið rekinn á tugmilljóna yfirdrætti og sveitarfélagið nánast búið að keyra sig í þrot eftir fjárfestingar í Miðjunni. Rekstur sveitarfélagsins er enginn dans á rósum þrátt fyrir að ýmis jákvæð teikn séu á lofti. Fjárfestingargetan er ekki mikil og það litla fé sem afgangs var fuðrar að verulegu leyti upp við þessi meirihlutaskipti.
Við höfum undanfarið reynt að skilja af hverju þessi umpólun þurfti að eiga sér stað og höfum ekki komist að niðurstöðu og gerum varla úr þessu. Lái okkur hver sem vill því í flestöllum málum á dagskrá sveitarstjórnar hefur ríkt samstaða um afgreiðslu milli Á-lista og D-lista. Þetta kann að koma lesendum á óvart, en markmið manna um velferð og hagsæld íbúa samfélagsins eru mjög lík þrátt fyrir lista-bókstafina. Það á að vera skemmtilegt að starfa að almannahag og láta gott af sér leiða. Umpólunin er því ekki vegna málefnalegs ágreinings svo ótrúlega sem það kann að hljóma heldur af allt öðrum toga sem við nýliðar skiljum ekki en gamlir pólitíkusar kalla eðlilega pólitík!
Við mótmælum dylgjum sem komu fram í Morgunblaðinu í grein um nýjan meirihluta í Rangárþingi ytra 19. nóvember. Upplifun okkar fyrrverandi félaga á meintum einræðistilburðum Guðfinnu Þorvaldsdóttur oddvita og fleira í þeim dúr, tökum við í engu undir. Einnig segjum við okkar skoðun á málum umbúðalaust teljum við þess þörf.
Nú er kominn nýr meirihluti í Rangárþingi ytra gegn vilja kjósenda og er ábyrgð hans mikil. Reyndar er það ekki flókið fyrir menn að sjá að ábyrgðin hvílir fyrst og fremst á fyrrverandi félaga okkar sem snýr við okkur baki. Hér eru niðurstöður kosninga að engu hafðar og traðkað er á lýðræðinu. En að sjálfsögðu berum við einnig mikla ábyrgð sem kjörnir fulltrúar og munum hér eftir sem hingað til sinna starfi okkar með hag almennings í huga. Þrátt fyrir allt horfum við bjartsýnir fram á við.
Höfundar eru fulltrúar Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra.
Magnús H. Jóhannsson og Steindór Tómasson