Skrifað undir viljayfirlýsingu um græna iðngarða í Rangárþingi ytra

Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri fyrir hönd Orkídeu, og Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri fyrir hönd sveitarfélagsins Rangárþings ytra, skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á grænum iðngörðum á Strönd í Rangárþingi ytra. Telja má að í því felist mikil tækifæri til eflingar atvinnulífs í sveitarfélaginu gangi áformin eftir.

Á-listinn fagnar því að þessi hugmynd sé komin á þetta stig en málið er í samræmi við áherslur Á-listans sem m.a. voru kynntar í dreifiriti fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Grænn iðngarður nær yfir ákvæðið svæði með ólíkum fyrirtækjum þar sem fyrirtækin leitast við að ná betri nýtni auðlinda, hreinni framleiðslu, stuðla að samvinnu fyrirtækja, draga úr loftslagsbreytingum og mengun ásamt því að fylgja félagslegum stöðlum, samnýta innviði og öðlast betri stýringu á áhættu. Grænn iðngarður er liður í því að byggja upp hringrásarkerfi í framleiðslu, sem byggjast á því lágmarka úrgang og hámarka nýtingu auðlinda. Jafnframt gefa iðngarðar, grænir sem aðrir, færi á sameiginlegum innkaupum orku og þjónustu sem er hagfelld fyrir einstök fyrirtæki iðngarðsins.

Skoðuð verða sérstaklega verkefni á sviði nýsköpunar í matvælaframleiðslu, líftækni og sjálfbærni sem gætu átt heima í Grænum iðngarði.

Um Orkídeu:

Orkídea er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið verkefnisins er að stuðla að aukinni og sjálfbærri matvælaframleiðslu og -vinnslu á Suðurlandi með bættri nýtingu endurnýjanlegra auðlinda svæðisins og hámarka samfélagsleg og efnahagsleg tækifæri því tengdu. Þannig eru styrkleikar svæðisins ásamt þekkingu og núverandi starfsemi nýtt til að skapa ný tækifæri til að vinna á lausnarmiðaðan hátt gegn helstu áskorunum nútímans. Í verkefninu verður stutt við uppbyggingu matvælaframleiðu og líftækni á svæðinu ásamt því að gera sveitarfélögum, núverandi matvælaframleiðendum og nýjum fyrirtækjum kleift að byggja upp aukna framleiðslu á svæðinu ásamt því að þróa nýjar aðferðir og skapa matvælaframleiðslu með sérstöðu á heimsvísu.

Verkefnið byggir á samstarfi sveitarfélaga á Suðurlandi, Landsvirkjunar, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þannig er hugmyndin að leiða saman íbúa svæðisins, leiðandi fyrirtæki í orkuvinnslu á svæðinu og þekkingarsamfélagið.

https://www.sass.is/orkidea2021/