Á-listinn býður fram í vor

Á fundi fulltrúa Á-listans í Rangárþingi ytra í vikunni var staðfest að listinn muni bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í vor. Listinn fékk fjóra menn kjörna í síðustu kosningum.

Þetta kemur fram á Facebooksíðu listans.

Einhugur ríkti á fundinum og mikill áhugi er á að halda áfram að vinna að málefnum sveitarfélagsins með þeirri hugmyndafræði sem er grundvöllur að starfinu. Hugmyndafræði Á-lista er í grófum dráttum sú að bjóða fram þverpólitískan lista í nafni samstarfs og samvinnu, sveitarfélaginu til heilla.

Á næstu misserum mun Á-listinn auglýsa starfið frekar og boða til opinna málefnafunda þar sem öllum íbúum sveitarfélagsins mun gefast kostur á að koma að mótun stefnunnar á lýðræðislegan hátt.