Menningarhús á Hellu

Rangárþing ytra, Ásahreppur og Oddasókn undirrituðu í síðustu viku samning um menningarhús, til eflingar menningarstarfs og félagsstarfs eldri borgara.

„Menningarhúsið“ verður starfrækt í nýju húsnæði Oddasóknar á Hellu. Oddasókn mun sjá um reksturinn í samstarfi við þau félög sem aðstöðuna munu nýta og sveitarfélögin leggja til fjárframlög til samstarfsins.

Félagasamtök í sveitarfélögunum fá aðgang að húsnæðinu endurgjaldslaust, til félagsstarfs, æfinga og fundahalda. Í þessu sambandi má nefna félag eldri borgara, Karlakór Rangæinga og Harmonikufélag Rangæinga.

Það er von allra sem að verkefninu standa að þetta verði mikil lyftistöng fyrir menningar- og félagsstarf í Rangárvallasýslu.