Má bjóða þér í kaffi?

Ég er best við eldhúsborðið, helst með kaffibolla í hönd, þá hef ég öll svörin. Ég er ótrúlega bjartsýn og finnst að það hljóti að vera til lausnir við öllum vandamálum. Sumar lausnir eru erfiðar, ennþá erfiðara að framkvæma þær og sjaldan eru allir á eitt sáttir um að lausnin sé hin eina rétta.

Við sem einstaklingar og þátttakendur í sveitarfélaginu okkar græðum á því að það sé ekki til ein allsherjar lausn á öllum heimsins vandamálum. Annars væri engin umræða en umræða kveikir á hugmyndum.

Við eldhúsborðið skapast umræður og séu þær málefnalegar, skapast hugmyndir sem hægt er að vinna með. Hugmyndir sem snúa að nærumhverfinu festast oft við eldhúsborðið og fara svo með kaffibollanum í þvottavélina og það líkar mér ekki.

Þess vegna er ég hér; ég hef hugmyndir, skoðanir og langanir sem fengu leið á eldhúsborðinu. Skoðanirnar eru persónulegar og spyrja mig: „Hvernig getur þú haft jákvæð áhrif á samferðafólk þitt og umhverfi?“ Hugmyndirnar hvetja mig til að stuðla að gagnrýnni hugsun og finna eða kenna einstaklingnum að nota þau verkfæri sem fyrir hendi eru. Í lok dags er það löngunin sem hjálpaði mér á fætur. Löngunin að hafa jákvæð áhrif í samfélaginu, hjálpa til við að skapa tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki, stuðla að úrræðum og hámarka hagnað samfélagsins.

Róm var ekki byggð á einum degi, hvað þá Rangárþing Ytra. Það er í mörg horn að líta og sum eru agalega rykug; einn daginn kemur þvottaplan á Hellu, við vitum ekki ennþá alveg hvar. Við vitum samt að gangstéttirnar og göngustígarnir á Hellu eru agalegir fyrir kerrur og hjólastóla. Við vitum að Hagabrautin og Árbæjarvegurinn eru ókeyrandi, það er mannekla í flottu leikskólunum okkar og það er langt í næsta gámasvæði víða úr dreifbýlinu. Ég veit þetta vegna ykkar sem mættu á málefnafund hjá Á-listanum og skildu málin eftir með kaffibollanum þar.

Þessar hugmyndir er nauðsynlegt að útfæra og framkvæma. Það þarf ekki fjögur ár til, en lykillinn er að velja skynsamlegasta kostinn og vanda vinnubrögðin svo þau standi til framtíðar.

Horfum til framtíðar, myndum okkur skoðun og nýtum samtalið. Þín skoðun skiptir máli!

Jóhanna Hlöðversdóttir, skipar 5. sætið á Á-listanum í Rangárþingi ytra